Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

64 íbúðir í húsinu sem áður hýsti Þórscafé og Baðhúsið

02.01.2021 - 19:32
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Verið er að reisa 64 íbúðir í sögufrægu húsi við Brautarholt sem hefur verið í niðurníðslu árum saman. Verktakinn segir að húsið sé í hörmulegu ástandi. Kostnaður við verkið er rúmur milljarður.

Húsið sem stendur við Brautarholt 18 til 20 er að mörgu leyti sögufrægt. Þar var til margra ára skemmtistaðurinn Þórscafé, sem var einhver vinsælasti skemmtistaður landsins á áttunda og níunda áratug síðustu aldar.

Hitt húsið var rekið í húsinu á fyrri hluta tíunda áratugarins og árið 1997 var svo líkamsræktarstöðin Baðhúsið opnuð í húsinu og var það rekið þar allt til ársins 2014. Húsnæðið hefur staðið autt upp frá því og hefur það látið mjög á sjá. En nú er að verða breyting þar á því framkvæmdir í húsinu eru hafnar.

„Við erum að fara að byggja hérna 64 íbúðir, litlar íbúðir, og við ætlum að nýta fermetraplássið eins vel og við getum. Það er það sem við erum að fara í hérna,“ segir Steindór Snær Ólason, framkvæmdastjóri Upprisu byggingarfélags, sem sér um framkvæmdina.

Þetta hús er í dálítið slæmu standi, það er búið að vera í niðurníðslu í nokkuð mörg ár ekki satt?

„Þetta hús er í hræðilegu ástandi en við ætlum að gera það tip topp. Það er bara þannig,“ segir Steindór.

Í sölu á seinni hluta næsta árs

Það er fyrirtækið LL09 sem stendur að verkinu en eigendur þess eru Upphaf fasteignafélag og fyrirtækið Fastefli ehf. sem er í eigu Steindórs Snæs og föður hans, Óla V. Steindórssonar. Verktakinn er byggingarfélagið Upprisa, sem einnig er í eigu þeirra feðga. Kostnaður við verkið er á annan milljarð króna.

„Þetta verða íbúðir á bilinu 28 til 65 fermetrar og við ætlum að vera með alls konar sniðugar innréttingar til þess að nýta hvern einasta fermeter alveg upp í topp. Það eru meðal annars Murphy rúm í flestum íbúðum sem fer upp í vegg,“ segir Steindór.

Hvenær sjáið þið fram á að setja fyrstu íbúðir í sölu?

„Við sjáum fram á að gera það seinni part 2021,“ segir Steindór.

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV