Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Yfir helmingur nýskráninga voru á nýorkubílum

01.01.2021 - 11:30
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Nýorkubílar, það er rafmagns-, hybrid-, tengiltvinn- og metanbílar voru 57,9 prósent allra nýskráðra bíla á síðasta ári. Til samanburðar þá var hlutfallið 27,6 prósent árið 2019. Þetta kemur fram í samantekt Bílgreinasambandsins fyrir síðasta ár.

Hreinir rafmagnsbílar voru 25,2 prósent nýskráðra bíla í fyrra, tengiltvinnbílar 19,9 prósent, hybridbílar 12,5 prósent og metanbílar 0,4 prósent. 

Nýskráningar fólksbíla drógust saman um 20 prósent í fyrra miðað við árið 2019. Nýskráðir bílar á síðasta ári voru tæplega 9.700 og er það undir meðtaltali síðustu ára. Þrátt fyrir það var aukning á sölu til einstaklinga og almennra fyrirtækja um 7 prósent milli ára. Samdrátturinn skýrist hins vegar af því að bílaleigur keyptu miklu færri bíla í fyrra en síðustu ár, eða 57,9 prósent færri. 

Toyota var mest selda bílategundin með tæplega 15 prósent hluteild. Þar á eftir komu Kia með 9,9 prósent og Tesla með 9,6 prósent. Bílgreinasambandið spáir því að nýskráningar bíla aukist um rúm 17 prósent á þessu ári.