
Talsverður erill hjá lögreglu og slökkviliði
Bróðurpartur eldanna í nótt er talinn hafa kviknað vegna flugelda. Alls voru farnir 62 sjúkraflutningar í nótt, margir vegna veikinda þó enginn vegna COVID-19, tveir voru fluttir á slysadeild vegna flugeldaslysa en ekki alvarlegra að sögn varðstjóra hjá slökkviliðinu.
Nóttin var sömuleiðis annasöm hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Mikið var kvartað undan hávaða, slagsmálum og allmargar tilkynningar bárust lögreglu um ölvun við akstur.
Nokkuð var einnig um að lögregla sinnti útköllum vegna elds í gámum og í bifreið auk ýmis konar vandræða með flugelda. Nokkur viðbúnaður var vegna slagsmála í fjölbýlishúsi í nótt, tveir voru handteknir og þurfti annar að leita aðhlynningar á sjúkrahúsi.
Skömmu eftir miðnætti hringdi maður á miðborgarlögreglustöðina og sagðist vera eftirlýstur. Við eftirgrennslan kom í ljós að hann fór hvergi með fleipur og var vistaður í fangageymslu vegna rannsóknar málsins.