Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Smittölur gefi tilefni til hóflegrar bjartsýni

01.01.2021 - 12:13
Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan
Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn almannavarna segir smittölur yfir aðventuna gefa tilefni til hóflegrar bjartsýni. Engin stærri mál um sóttvarnabrot hafi borist honum eftir nóttina.

„Dagurinn er ennþá ungur og ég heyri ekki af svona málum nema þetta sé í stærri kantinum og alvarleg mál, annars eru svona mál afgreidd af staðarlögreglu á hverjum stað,“ segir Rögnvaldur. Í dagbók lögreglu var talað um nokkura ölvun og partístand á höfuðborgarsvæðinu, mikið um hávaðamál í öllum hverfum og nokkur innlit inn í samkvæmi í heimahúsum. 

Eins og í fyrradag greindust þrír með COVID innanlands í gær, tveir þeirra í sóttkví. Þá greindust þrír smitaðir á landamærunum. Þetta sýna bráðabirgðatölur frá almannavörnum, en farið verður yfir þær eftir helgi. Smittölur fyrir helgar og frídaga eru þó alltaf teknar með varúð. 

„Það er tilhneyging hjá folki til að mæta síður á þeim dögum í sýnatökur. En þetta er á svipuðu róli og þær tölur sem við höfum verið að sjá núna. Vð erum svona hóflega bjartsyn. Það kom okkur á óvart hvað það hefur gengið vel á aðventunni með smit. Við áttum von á að það  myndi eitthvað fara af stað en eins og staðan er núna lítur út fyrir að við séum að koma ágætlega udan þessum tíma. En svo er alltaf möguleiki að það sé eitthvað að grassera þarna úti sem við erum ekki búin að finna en við erum hóflega bjartsýn í augnablikinu allavega.“

Engin ný sýni verða tekin við Suðurlandsbraut í dag, en Rögnvaldur segir að ef fólk sýnir mikil einkenni komist það í sýnatöku til dæmis hjá læknavaktinni á höfuðborgarsvæðinu. Sýnataka hefst aftur með hefðbundnum hætti á suðurlandsbraut á morgun, laugardaginn annan janúar. 

Tuttugu og einn eyddu áramótunum í farsóttarhúsinu við Rauðarárstíg. Ellefu þeirra í einangrun. Gylfi Þór Þorsteinsson sagði í samtali við fréttastofu að þau séu með væg einkenni.