Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

„Nú eigum við svo mikið af börnum“

Mynd með færslu
 Mynd: Loftslagsdæmið

„Nú eigum við svo mikið af börnum“

01.01.2021 - 13:02

Höfundar

„Ég fór nú að kynna mér þetta loftslagsdæmi vegna þess að nú eigum við svo mikið af börnum. Mér fannst einhvern veginn svolítið skrítið að vera að eignast öll þessi börn og ætla svo bara að halda áfram eins og ekkert hefði í skorist því við verðum að breyta okkar lifnaðarháttum,“ segir Stella Soffía Jóhannesdóttir, verkefnastjóri hjá Forlaginu. Maðurinn hennar, Kristján Rúnar Kristjánsson, vinnur í áhættustýringu hjá Íslandsbanka og fékk aukinn áhuga á loftslagsmálum í gegnum vinnuna.

„Við erum alltaf að rannsaka betur hvaða áhrif loftslagsbreytingar hafa á fjármálin og bankastarfsemi og mitt hlutverk er svolítið að reyna að skilja hvernig fyrirtækin sem hafa fengið lán hjá bankanum munu geta aðlagað sig þannig að þau geti í raun haldið sínu viðskiptamódeli áfram og líka borgað af lánunum sínum. Eftir því sem ég kynni mér málin betur, því svona hræddari verð ég. Mér finnst þetta alltaf skipta meira og meira máli og hef rosa mikið hugsað, ókei, við verðum að gera eitthvað í þessu, hvað get ég gert?“ Segir Kristján. 

Fjórar fjölskyldur minnka kolefnissporið

Já hvað getur venjulegt fólk gert til að forða mannkyninu frá alvarlegustu afleiðingum loftslagsbreytinga? Hvað þarf að breytast svo að almenningur geti lifað loftslagsvænna lífi?  

Í þáttaröðinni Loftslagsdæminu fylgist Arnhildur Hálfdánardóttir, frétta- og dagskrárgerðarmaður, með fjórum fjölskyldum sem reyna að skora vanann á hólm og breyta lífi sínu með það að markmiði að minnka kolefnisspor heimilisins um fjórðung á tveggja mánaða tímabili. Á leiðinni leita fjölskyldurnar svara við ýmsum spurningum sem kvikna og tjá sig opinskátt um reynslu sína. Auglýst var eftir þátttakendum síðastliðið sumar og verkefnið stóð yfir frá 1. október 2020 til 30. nóvember. 

Fjölskyldurnar fjórar nutu leiðsagnar Birnu Hallsdóttur, umhverfisverkfræðings, og Stefáns Gíslasonar, umhverfisstjórnunarfræðings, hjá ráðgjafarfyrirtækinu Environice sem reiknuðu kolefnisspor þeirra og lögðu á ráðin með þeim um hvernig best væri að minnka sporið.

Með geðveikan móral yfir sódastrímtækinu

Mynd með færslu
 Mynd: Loftslagsdæmið
Fjölskyldan öll: Baldur Atli, Stella Soffía, Áslaug Edda, Þórdís Ólöf, Una Karítas og Kristján Rúnar.

Til fá mynd af kolefnissporinu bjuggu Birna og Stefán til Excel-skjal þar sem spurt er út í mörg helstu atriði sem mynda kolefnisspor fjölskyldna, rafmagn og hita, bensíneyðslu, flugferðir, hversu mörg kíló þau borða af hinum og þessum matvælum á viku, kaup á fatnaði, húsgögnum og raftækjum, hversu miklum tíma þau verja í að streyma efni í tölvunni eða símanum og hversu miklu þau henda. 

Kristján Rúnar hafði áhyggjur af Sódastrímtækinu. „Okkur finnst rosalega gott að drekka sódavatn og ég veit, af því ég er nýbúinn að kaupa svona gaskút, að þetta er hálft kíló af koltvísýringi, þannig að ég fer bara út í búð og kaupi hálft kíló af koltvísýringi. Svo bara losa ég hann viljandi,“ segir Kristján.  

„Hann var með geðveikan móral,“ hlær Stella. 

Loftslagsdæmið hefur göngu sína á Rás 1 kl. 10:15 á laugardag. Í fyrsta þætti kynnumst við Stellu, Kristjáni og börnunum þeirra fjórum og skoðum neyslu þeirra og lífshætti.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Vill halda fast í lýðræðið á tímum loftslagsbreytinga

Menningarefni

Vegan með slátursvín á handleggnum

Menningarefni

Afneitararnir skilja umfang vandans

Menningarefni

„Ókei, ég held að heimurinn sé að farast“