Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Mikið svifryk í lofti eftir nóttina

01.01.2021 - 07:26
Mikil svifryksmengun var um allt höfuðborgarsvæðið á nýársnótt 2021.
 Mynd: Bjarni Rúnarsson
Árið 2021 hófst með hægviðri en því fylgdi þó nokkur mengun á höfuðborgarsvæðinu.

Nokkuð rakt loft var á suðvesturhorninu í gærkvöldi og aðeins var farið að bera á þokubökkum fyrir miðnætti en þegar svifrykið frá flugeldum bættist við jókst þétting rakans í loftinu og úr varð nokkuð þétt þoka samansett úr röku lofti og reyk.

Að sögn veðurfræðings á er loftið þó farið að hreinsast þó ennþá sitji ryk í lægðum. Er líður á daginn er þó vaxandi sunnanátt vestantil á landinu sem mun blása restinni af svifrykinu í burtu.

Í kvöld hlýnar og þykknar upp með rigningu en áfram verður bjart og kalt í öðrum landshlutum fram á morgundaginn.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV