Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Kostar milljarð að laga ónýta vegi á Suðurfjörðum

01.01.2021 - 13:00
Mynd með færslu
 Mynd: aðsend mynd - RÚV
Umtalsverðar slitlagsskemmdir eru á veginum um Mikladal, í Tálknafirði og á Bíldudalsvegi. Svæðisstjóri Vegagerðarinnar segir þörf á að endurbyggja veginn en það myndi kosta hátt í milljarð króna.

Skemmdirnar eru umtalsverðar og er klæðingin víða farin af með öllu. Aðstæður geta verið varasamar og biður Vegagerðin fólk um að aka varlega um. Pálmi Þór Sævarsson er svæðisstjóri hjá Vegagerðinni. 

„Þetta eru gamlir vegir sem eru byggðir fyrir þrjátíu, fjörutíu árum. Stærsta vandamálið í grunninn er bara burðarvandamál. Þetta eru vegir sem eru byggðir fyrir umferðina á sínum tíma.“

Með auknum umsvifum í atvinnulífi á sunnanverðum Vestfjörðum, þá sérstaklega fiskeldi, hafa þungaflutningar aukist umtalsvert. Pálmi segir að um þrjátíu vörubílar fari um Mikladal á degi hverjum. Augljóst sé að vegirnir höndli ekki álagið. 

„Við svo sem höfum haft áhyggjur af þessu í þó nokkurn tíma og ráðum í raun kannski ekkert alveg við ástandið eins og það er orðið, miðað við þær fjárveitingar sem við höfum í viðhaldinu.“

Kostar milljarð að laga skemmdirnar með fullnægjandi hætti

Eini varanlegi kosturinn á þessu stigi sé að endurbyggja veginn. Pálma telst til að um hundrað milljónir kosti að endurbyggja hvern kílómetra.

„Versti kaflinn í dag, það eru einhverjir fjórir, fimm kílómetrar. Þetta eru einhverjir tíu kílómetrar sem þarf að taka í dag á Mikladal og þá erum við að tala um um það bil milljarð sem þarf í allan kaflann. “

Nú sé einungis fært að bæta skemmdirnar, sem sé skammgóður vermir og dýrara til langframa litið.