Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Horfði upp á húsið sitt eyðileggjast í stóru skriðunni

Mynd: Hjalti Stefánsson / RÚV
Seyðfirðingar tóku á móti nýja árinu á friðsælan hátt með kertum í stað flugelda. Haraldur Björn Halldórsson segir óraunverulegt að hafa séð húsið sitt fara með stóru skriðunni. Hann stefnir á að endurbyggja það, helst á sama stað, en óvíst er að hvort leyfi fáist fyrir því.

Á Seyðisfirði var nánast ekkert um flugelda. Seyðfirðingar segjast hafa viljað forðast hasarinn sem fylgir flugeldum, þá minna sprengjuhljóðin óneitanlega á drunurnar í skriðuföllunum fyrir jól. Í staðinn tóku Seyðfirðingar á móti nýja árinu með því að raða kertum umhverfis lónið í bænum sem var ísilagt í gærkvöld. Þá var lagið Ég er kominn heim sungið.

„Skelfilegt að upplifa þetta“

Enn mega um fimmtán fjölskyldur ekki fara heim, rúmum hálfum mánuði eftir að skriðurnar féllu, þar sem hús þeirra eru á rýmingarsvæði. Þá eru nokkrir sem eiga ekki í nein hús að venda. Þrjú íbúðarhús grófust undir skriðunum og tvö skemmdust mikið. Þar á meðal Framhús. „Maður vissi eiginlega ekkert hvað var að gerast, maður heyrði bara óhljóð og svo lak húsið manns fram af grunninum. Þetta var ekki hamfara-dæmi þannig, en auðvitað skelfilegt að upplifa þetta,“ segir Haraldur Björn Halldórsson, eigandi Framhúss.

Haraldur hafði skroppið heim um klukkustund áður en skriðan féll til að skipta um föt og skildi ökutækið eftir í gangi fyrir utan, af því hann hafði grun um að hlíðin væri óstöðug. Það var ekki búið að rýma götuna þar sem húsið stendur, en það var mannlaust þegar skriðan féll. Þar sem Haraldur var að dæla vatni og aur upp úr kjallara í næsta nágrenni við Framhús. „Þetta verður óraunverulegt í minningunni. Þetta er húsið mitt alveg sama þó það sé á hliðinni eða ekki,“ segir hann.

Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Stefánsson - RÚV
Framhús

Stefnir á að endurbyggja húsið á sama stað

Ljóst er að tjónið er mikið. Framhús er yfir 100 ára gamalt. Haraldur og fjölskylda hans höfðu gert það upp sjálf síðastliðin átta ár. Hann hefur lítið farið inn í húsið síðan skriðan féll. „Það voru rústabjörgunarmenn sem tóku til fyrir mig — Jólahreingerningin.“

Dæmi eru um að Seyðfirðingar treysti sér ekki heim og þeir sem búa enn á skilgreindu hættusvæði búast við að mega aldrei aftur snúa í húsin sín vegna sprungu í hlíðinni. Haraldur er þó hvergi af baki dottinn.  „Ég stefni á að endurbyggja það. Hvernig sem það verður gert og það er ekki vitað með hvað gerist í framhaldi, hvort það verði hreinlega leyft að byggja á sama stað. Auðvitað væri það óskastaðan,“ segir hann.

„Við keyptum okkur hús á þessum stað — það var ekki bara húsið sem heillaði það var líka staðsetningin. Og hver ætti svosem að banna að leyfa það. Ég veit ekki alveg næstu skref með það.“

En þú ert allavega ekki á því að flytja héðan frá Seyðisfirði? „Engan veginn, það er bara upp og áfram sko. Hér vill maður vera. Ég kaus mér sjálfur að flytja hingað og ætla bara að standa við þá ákvörðun.“