Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Fjórtán sæmd hinni íslensku fálkaorðu

01.01.2021 - 18:01
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, sæmdi í dag fjórtán manns heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu. Orðuveitingin var með breyttu sniði í þetta sinn vegna sóttvarnareglna. Í stað hefðbundinnar athafnar þar sem öll þau, sem veita á orður, koma saman á Bessastöðum, var haldin sérstök athöfn fyrir hvert og eitt þeirra.

Eftirfarandi er listi yfir þau sem hlutu orðuna í dag:

Bernd Ogrodnik brúðumeistari, Reykjavík, riddarakross fyrir framlag til brúðuleikhúss og íslenskrar menningar.

Björn Þór Ólafsson fyrrverandi íþróttakennari, Ólafsfirði, riddarakross fyrir framlag til skíðaíþrótta, félagsmála og menningarlífs í heimabyggð. 

Bryndís Guðmundsdóttir talmeinafræðingur, Reykjanesbæ, riddarakross fyrir störf og fræðslu á sviðum talmeinafræði og táknmáls.

Halldór Benóný Nellett skipherra, Seltjarnarnesi, riddarakross fyrir forystu á vettvangi landhelgisgæslu og björgunarstarfa.

Helga Sif Friðjónsdóttir geðhjúkrunarfræðingur, Kópavogi, riddarakross fyrir brautryðjandastörf á vettvangi skaðaminnkunar fyrir fíkniefnaneytendur og aðra jaðarsetta hópa.

Helgi Ólafsson rafvirkjameistari, Raufarhöfn, riddarakross fyrir framlag til atvinnulífs, lista og menningar í heimabyggð.

Hrafnhildur Ragnarsdóttir fyrrverandi prófessor, Reykjavík, riddarakross fyrir rannsóknir og miðlun þekkingar um mál og málnotkun, málþroska barna og þróun læsis.

Jón Atli Benediktsson rektor, Reykjavík, riddarakross fyrir framlag til alþjóðlegra vísinda og nýsköpunar á sviði fjarkönnunar og stafrænnar myndgreiningar og störf í þágu háskólamenntunar.

Pétur H. Ármannsson arkitekt, Reykjavík, riddarakross fyrir rannsóknir á sögu byggingarlistar á Íslandi og miðlun þekkingar á því sviði.

Pétur Guðfinnsson fyrrverandi útvarpsstjóri, Reykjavík, riddarakross fyrir forystustörf á vettvangi íslenskra fjölmiðla.

Sigrún Árnadóttir þýðandi, Reykjavík, riddarakross fyrir þýðingarstörf og framlag til íslenskrar barnamenningar.

Sigrún Edda Björnsdóttir leikkona, Reykjavík, riddarakross fyrir framlag til íslenskrar leiklistar.

Vanda Sigurgeirsdóttir lektor og fyrrverandi knattspyrnumaður, Reykjavík, riddarakross fyrir framlag til knattspyrnu kvenna og baráttu gegn einelti.

Vilborg Ingólfsdóttir hjúkrunar- og lýðheilsufræðingur, Reykjavík, riddarakross fyrir framlag til hjúkrunar og heilbrigðisþjónustu á Íslandi og á alþjóðavettvangi.