Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fjögur börn á slysadeild vegna flugeldaslysa

01.01.2021 - 17:22
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Níu komu á slysadeild Landspítalans á nýársnótt vegna flugeldaslysa. Um helmingur var börn. Mikill erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Sérlega mikil mengun var af völdum svifryks í nótt. 

Á annað hundrað mál voru skráð hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Útköllin voru í heimahús að þessu sinni því skemmtistaðir voru lokaðir. 

Engin augnslys um áramótin

Af þeim níu sem leituðu á slysadeild voru fjögur eða fimm börn, það yngsta tveggja ára, segir Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðalækninga á Landspítala. Sum voru lögð inn í spítalann fyrst og fremst vegna brunasára. Ekki urðu augnslys enda notkun hlífðargleraugna almennt orðin góð, segir Jón Magnús. Hann segir að slysafjöldinn sé ekki meiri en undanfarin ár en að áður hafi slysin dreifst yfir fleiri daga en nú. Þá var nokkuð um slys tengd skemmtanahaldi.

Einhverjir fengu sér líklega fullmikið af áfengi en tökumaður á leið á vakt á Fréttastofu ók fram á rænulítinn eða sofandi mann út á götu í Garðabæ. Svo heppilega vildi til að heilbrigðisstarfsmaður á leið á vakt á Landspítala kom þar rétt á undan og athugaði lífsmörk. Maðurinn var fluttur með sjúkrabíl á slysadeild en þurfti ekki á aðhlynningu að halda og var komið til síns heima. 
120 mál voru skráð hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt.

Útköllin í heimahús enda skemmtistaðir lokaðir

„Nóttin var almennt nokkuð erilsöm en ekkert samt langt umfram það sem gengur og gerist. Það voru þessi hefðbundnu verkefni eins og hávaðaútköll, ölvunar- og fíkniefnaakstur, eitthvað um eld, þá aðallega í ruslagámum tengt þá flugeldum og þess háttar og aðeins um líkamsárásir,“ segir Unnar Már Ástþórsson, varðstjóri hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. „Þetta eru ósköp svipuð verkefni eins og við höfum verið að vinna síðustu áramót. Það sem er óvenjulegast við þetta núna er að það er ekkert skemmtanahald á skemmtistöðum hvort sem er í úthverfum eða á miðborgarsvæðinu. Athyglin okkar beindist meira að heimilunum heldur en um síðustu áramót,“ segir Unnar Már.

Mikil svifryksmengun í nótt

Loftgæði á höfuðborgarsvæðinu voru orðin mjög góð fyrir hádegi. Í nótt var hins vegar mikil svifryksmengun. Verstu spár Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur gengu ekki eftir, segir Svava S. Steinarsdóttir heilbrigðisfulltrúi hjá eftirlitinu. Mengunin var minni en á gamlárskvöld 2018 og á sumum mælistöðum aðeins minni mengun en á gamlárskvöld 2019. „En engu að síður mjög há gildi og það sem er aukið áhyggjuefni er hversu hátt fínasta svifrykið var,“ segir hún.  

Þótt sólarhringurinn sé ekki liðinn þá gerir hún ráð fyrir því að svifryksmengunin hafi verið yfir heilsuverndarmörkum. Mest var mengun á fyrstu klukkustund nýs árs mældist á mótum Bústaðavegar og Háaleitisbrautar. Þegar líða tók á nóttina var mengunin mest á mæli í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í Laugardal en þar mældust 1029 míkrógrömm á rúmmetra milli klukkan tvö og þrjú. Svava segir að til samanburðar mæli Alþjóðaheilbrigðisstofnunin með því á sólarhringsmengun fínasta svifryksins fari ekki yfir 25 míkrógrömm á rúmmetra. 

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV