
Stanley Johnson, faðir forsætisráðherrans, er áttræður og af frönskum ættum. Hann fæddist í Frakklandi og amma hans var frönsk, að því er hann sagði í viðtali við frönsku útvarpsstöðina RTL. „Fyrir mig þá var þetta spurning um að fá formlega eitthvað sem ég þegar hafði og ég er mjög ánægður með það,“ sagði hann, að því er Guardian greinir frá. Stanley Johnson var þingmaður fyrir áratugum og einn fyrstu sendierindreka Breta í Brussel eftir að Bretland gekk í ESB, þá Evrópska efnahagsbandalagið, árið 1973. Síðar starfaði hann fyrir framkvæmdastjórn sambandsins.
AFP-fréttastofan hefur eftir honum að hann verði alltaf Evrópubúi í hjarta sínu og að álfan sé fleira en innri markaðurinn og sambandið. Þegar þjóðaratkvæðagreiðsla um Brexit fór fram árið 2016 var hann ekki hlynntur útgöngu. Sonur hans var aftur á móti einn þeirra sem leiddu baráttuna fyrir útgöngunni og hét því, þegar hann tók við embætti forsætisráðherra, sumarið 2019, að koma Bretum úr sambandinu, hvort sem samningar um framtíðar viðskipti myndu nást eða ekki. Svo fór þó að samningar náðust á aðfangadag.