Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Einn fannst látinn í Ask

01.01.2021 - 14:36
epa08914205 A handout photo made available by The Norwegian Water Resources and Energy Directorate of an areal view of the landslide area in Ask in Gjerdrum municipality, Norway, 01 January 2021.  EPA-EFE/Jaran Wasrud/NVE HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - NVE
Einn fannst látinn í dag eftir skriður í bænum Ask í Noregi aðfaranótt miðvikudags. Björgunarsveitir frá Svíþjóð eru komnar til bæjarins til aðstoðar við leit að þeim tíu manneskjum sem hefur verið saknað eftir að land rann undan bænum í mikilli skriðu. Norskar björgunarsveitir með leitarhunda eru einnig komnar þangað og í dag er í fyrsta sinn leitað á jörðu niðri.

Leitin hefur staðið yfir í tvo sólarhringa og hingað til hefur ekki þótt óhætt að leita á svæðinu vegna skriðuhættu og hefur því aðeins verið leitað úr lofti. Talið er óhætt að fara inn í eitt húsanna í dag. Ekki er talið óhætt að fara með stórvirkar vinnuvélar á svæðið og reyna björgunarsveitir því að athafna sig á frauðplastbrettum. Norska ríkisútvarpið, NRK, greinir frá því að einn hafi fundist látinn í dag. 

Tvö börn eru á meðal þeirra sem er saknað eftir hamfarirnar. Leit að fólkinu er í fullum gangi og lögreglan leggur áherslu á að þetta sé björgunaraðgerð, enn sé búist við að finna fólk á lífi. Þúsund manns var gert að yfirgefa bæinn eftir skriðurnar og í gærkvöld þurfti að rýma fjórtán hús til viðbótar. Um fjörutíu hús hafa skemmst eða eyðilagst og fólk veit ekki hvenær það getur snúið aftur heim.

epa08914141 A mobile bridge from the Norwegian Armed Forces is being prepared for use in the rescue work that will continue after a major landslide and clay landslide occurred in Ask, Norway, 01 January 2021. Several homes have been taken by the landslide, several hundred have been evacuated and several have been sent to hospital.  EPA-EFE/Terje Pedersen  NORWAY OUT
 Mynd: EPA-EFE - NTB
Norski herinn er tilbúinn með búnað til leitarinnar. Myndin var tekin í dag.

Christina Brenden býr í Ask en var í bústað ásamt eiginmanni sínum og tveimur börnum þegar jarðvegurinn féll. Hús nágranna þeirra eru ónýt eftir hamfarirnar. „Hús nágranna okkar og húsin sem stóðu fyrir framan okkar eru farin,“ segir Brenden. Þau hafi hugsað mikið til þeirra sem enn er saknað og það sé sárt að vita ekki afdrif nágranna sinna. Hús Brendan og fjölskyldu stendur við brúnina á gýgnum sem hefur myndast eftir jarðfallið. Það gæti hrunið niður á hverri stundu. Það sem skiptir öllu er að við erum á lífi, segir hún. En það er sárt til þess að hugsa að húsið okkar gæti hrunið. 

Þorsteinn Sæmundsson, jarðfræðingur, sagði í fréttum í gær að hætta hafi verið á skriðuföllum á svæðinu og að líklega verði fleiri skriður á næstu árum. Ask, eins og margir aðrir bæir í Noregi, er reistur á gömlum sjávarbotni. Jarðvegurinn er óstöðugur leir og lítið þarf til að koma honum á hreyfingu. Brenden segist ekki hafa fengið neinar upplýsingar um skriðuhættu. Hún hafi lesið í fjölmiðlum að atburðirnir hafi komið flestum í opna skjöldu. 

Norska ríkisútvarpið, NRK, hefur eftir Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs, að kollegar í mörgum ríkjum hafi haft samband og boðið fram aðstoð.