Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

App sem fylgist með augnheilsu sykursjúkra

01.01.2021 - 23:56
Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Arna Guðmundsdóttir sérfræðilæknir hefur um langa hríð sinnt sjúklingum með sykursýki. Hún stofnaði fyrirtækið Risk Medical Solutions ásamt Einari Stefánssyni augnlækni árið 2009, sem hefur þróað app sem ætlað er að auðvelda fólki með sykursýki að fylgjast með augnheilsu sinni.

Thor Aspelund, prófessor við Miðstöð í lýðheilsuvísindum, og Jóhann Pétur Malmquist, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands komu ásamt þeim að þróun appsins ásamt fleirum. 

Talið er að sykursýki hafi valdið því að yfir 120 milljónir um heim allan hafi misst sjónina en appið fylgist með og greinir þá þætti sem geta valdið sjónskerðingu á borð við blóðþrýsting og blóðsykursmagn í blóði.

„Appið byggir á reiknilíkani sem dregur saman margvíslegar heilsuuppslýsingar tengdar blóðsykri, blóðþrýstingi, aldri, hversu lengi sjúkdómurinn hefur varað o.s.frv. og gefur þannig mjög nákvæma mynd af stöðu mála hjá hverjum og einum sjúklingi,“ segir Einar Stefánsson á fréttavef Háskóla Íslands.

Með því að hægt sé að bregðast skjótt við breytingum megi koma í veg fyrir að fólk tapi sjón í 95% tilfella. Forbes hefur eftir Örnu að mikilvægt sé að fólk taki ábyrgð á eigin heilsu og með því að færa því verkfæri í hendur geti það ráðið eigin örlögum.

Þegar hafa um 800 þúsund um víða veröld sótt sér appið og þegar má greina framfarir hjá því fólki að sögn Örnu.