
Viðbótarframlag til neyðaraðstoðar í Jemen
Á vef ráðuneytisins kemur fram að Matvælaáætlunin veiti 13 milljónum Jemena matvælaaðstoð í hverjum mánuði og styðji eina milljón kvenna og tvær milljónir barna með meðferð gegn vannæringu.
Um 80 af hundraði Jemena þurfi á mannúðaraðstoð að halda, enda ríki þar neyðarástand vegna langvarandi stríðsástands. Öll grunnþjónusta við almenning í landinu er í molum að því er segir á vef ráðuneytisins.
Haft er eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra að fullyrða megi að hvergi í veröldinni sé meiri þörf fyrir neyðar- og matvælaaðstoð en þar.
„Vannæring er hrikalegt vandamál í Jemen, ekki síst á meðal ungra barna, og ástandið var orðið mjög slæmt í þeim efnum jafnvel áður en stríðið þar braust út," segir Guðlaugur Þór.
Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna hlaut friðarverðlaun Nóbels á þessu ári fyrir baráttu sína gegn hungri og fyrir friði á átakasvæðum. Jafnframt fyrir átak sitt til að sporna gegn því að stríðandi fylkingar noti hungur sem vopn í stríði og átökum.