Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Tók „lítinn Tom Cruise“ þegar Netflix stoppaði Kötlu

Mynd:  / 

Tók „lítinn Tom Cruise“ þegar Netflix stoppaði Kötlu

31.12.2020 - 10:36

Höfundar

Baltasar Kormákur segist hafa brugðist illa við þegar Netflix ætlaði að stöðva framleiðslu á sjónvarpsþáttunum Kötlu vegna heimsfaraldursins. Leikstjórinn lagði höfuðið í bleyti og úr varð sóttvarnarkerfi sem vakti heimsathygli. „Ég hef aldrei lent í annarri eins viðtalahrinu.“

Baltasar Kormákur segir í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 að árið hafi byrjað brösuglega þegar heimsfaraldur COVID-19 skall á en það hafi ræst úr fyrir honum og fyrirtæki hans. „Þetta hefur ekki verið alslæmt, alls ekki.“

Baltasar var við tökur á stórri Netflix-framleiðslu í miðjum faraldrinum, sjónvarpsþáttunum Kötlu, þegar hann fékk símtal frá stjórnendum og var sagt að nú þyrfti að setja tökurnar á ís. 

„Við þurftum að stoppa og vorum með þeim síðustu sem Netflix [stoppaði] ... Þegar þeir hringja í mig segja þeir „þú ert einn eftir“ og búið að stoppa allt annað í heiminum. Ég hélt einhvern veginn, af því að ég er ekkert vanur að láta stoppa mig, að ég yrði ekkert stoppaður,“ segir Baltasar og hlær. „Ég tók lítinn Tom Cruise úti í bíl við þá, en ekki starfsfólkið. Ég þurfti svo að fara inn og tilkynna starfsfólkinu mínu að við yrðum að stoppa.“ Vísar hann þar til nýlegra frétta af heiftarlegum viðbrögðum Toms Cruise þegar hann varð þess var að sóttvarnareglur voru ekki virtar á tökustað Mission Impossible.

„Sem betur fer tókst mér að semja við Netflix um að greiða fólkinu áfram um tíma. Þá lagði ég hausinn í bleyti. Ég fékk létta maníu, hvernig ég gæti komist í gegnum þetta, og endaði með að komast tveimur vikum síðar aftur af stað, þá fyrstur í heiminum, alla vega fyrir Netflix.“

Litakóðakerfi byggt á sundlaugunum í Kópavogi

Baltasar segir að honum hafi tekist að sannfæra stjórnendur Netflix um að aðstæður á Íslandi og sóttvarnaraðgerðir gerðu honum kleift að hafa næga stjórn á aðstæðum til að hægt væri að halda framleiðslunni áfram.

„Og þá kom ég upp litakóðakerfi sem var aðallega byggt á sundlaugunum í Kópavogi þegar ég var krakki ... Það var farið með þetta sem svaðalega snilld. Ég var í viðtali við New York Times og hef aldrei lent í annarri eins viðtalahrinu. Þetta verður „legacy-ið“ mitt, litakóðakerfið sem ég kom með á handahlaupum,“ segir hann í léttum dúr. „Það voru gerð vídeó uppi í stúdíói þar sem við vorum með gulu böndin, eitthvað að væflast, og þetta var notað sem kennslumyndband fyrir Netflix út um allan heim til að sýna hvernig hægt væri að vinna í faraldrinum.“

Baltasar segir að tvö smit hafi komið upp við framleiðsluna og er stoltastur af því hvernig komið var í veg fyrir að þau dreifðust. „Þeim brá svolítið þegar ég sagði frá þessu fyrst ... Það var stóra fréttin, ekki að við hefðum verið svo heppin að ekkert kom, heldur að við lentum í að það kom fólk á settið, sem var með smit sem það vissi ekki af, og okkur tókst að stoppa það, senda það í skimun og komum í veg fyrir að það smitaði. Þetta leiddi huga minn að því að það gæti hafa verið hægt að vinna meira með fyrirtækinu. Láta fyrirtækið finna þetta og senda fólk í skimun því það var fólk labbandi um samfélagið með þetta, án þess að vita það.“

Baltasar segir að Ísland geti gert sig gildandi í kvikmyndagerð á heimsvísu eftir heimsfaraldurinn. „Eins og túristabransinn rauk upp eftir gos, við gætum byggt upp mjög sterkan kvikmyndaiðnað hérna.“

Stórt verkefni með Idris Elba framundan

Framleiðslan á Kötlu er á lokametrunum og þættirnir verða sýndir á Netflix í vor eða sumar. „Þetta er geysilega spennandi. Þetta er ólíkt því sem hefur verið gert hérna áður, svona dramatískt sci-fi, þar sem gerast atburðir sem við erum ekki endilega vön að gerist í okkar lífi.“

Það er annars nóg um að vera hjá Baltasar Kormáki. Auk Kötlu er hann að gera kvikmynd fyrir Netflix með Nikolaj Coster-Waldau í aðalhlutverki. Hann er einnig að ljúka við að klippa þriðju þáttaröðina af Ófærð og stór kvikmynd fyrir Universal Studios, sem tekin er upp í Suður-Afríku með stórstjörnunni Idris Elba í aðalhlutverki, er í vinnslu.

 

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Hefur ekki undan við að svara framleiðendum

Sjónvarp

Allir skimaðir fyrir COVID-19 á tökustað Kötlu

Kvikmyndir

Netflix fullfjármagnar þáttaröð á íslensku

Tónlist

Sjö smáatriði sem enginn tók eftir í Ófærð