Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Svifryksmengunin eykur líkurnar á veirusmiti

31.12.2020 - 12:41
Góðan dag og glelðilegt ár.
Sendi mynd sem ég tók um miðnætti við Hallgrímskirkju.
Gæti e.t.v. Passað betur en þessi sem er með áramótafréttinni.
Full heimild til endurgjaldslausrar notkunar. Mynd: hiticeland.com
Kveðja
Einar Páll
 Mynd: Einar Svavarsson - hiticeland.com
Fyllsta ástæða er til að hafa áhyggjur af heilsufarslegum áhrifum mikillar svifryksmengunar sem útlit er fyrir um áramótin á höfuðborgarsvæðinu. Þetta segir Gunnar Guðmundsson, lungnasérfræðingur á Landspítala. Hann segir að mengunin auki líkur á að fá veirusýkingar, tími sé til kominn að fagna áramótum með öðrum hætti en skjóta upp flugeldum.

Allt stefnir í að svifryksmengun á höfuðborgarsvæðinu verði yfir heilsuverndarmörkum frá því í kvöld og langt fram á morgun, nýársdag. Svava Steinarsdóttir, heilbrigðisfulltrúi Reykjavíkurborgar, segir að veður valdi því að mengunin muni vara svona lengi. Hún segir að litlu skipti að engar brennur verða í borginni, þær valdi lítilli mengun samanborið við flugeldana.  „Langstærsti hlutinn af svifryksmenguninni og sérstaklega þessu fíngerða ryki sem við erum að sjá svo mikið af um áramót, það kemur frá flugeldum,“ segir Svava.

Gunnar segir ríka ástæðu til að hafa áhyggjur af lungnasjúklingum. 

„ Það eru allt að 25 þúsund manns sem gætu verið að finna fyrir auknum einkennum. Eitt af því sem COVID hefur gert er að það hefur aukið á samkennd almennings með lungnasjúklingum, nú eru margir búnir að kynnast því að þurfa að vera inni og einangra sig. Þannig að ég hef þá trú að það verði ekki eins miklu skotið upp og fólk er að halda,“ segir Gunnar. „Ég held að fólk sé búið að átta sig á því hvað þetta er slæmt fyrir okkur, að vera með þessa miklu flugeldamengun.“

Gunnar segir að svifryk geti verið sérlega slæmt fyrir þá sem hafa fengið COVID-19. „Svo er vel þekkt að loftmengun eykur líkurnar á að fá veirusýkingar. Hún gerir loftvegina næmari, þannig að þetta er ekki heppilegt þegar við erum að fást við COVID að eiga þetta á hættu í kvöld.“

Gunnar segir að fátt sé annað til ráða fyrir þá sem eru viðkvæmir fyrir menguninni annað en að loka sig inni og nota innöndunarlyf, sé þess þörf. Eina leiðin til að draga úr menguninni sé að skjóta upp færri flugeldum.  „Það er fátt annað til ráða en að biðja um gott veður með miklum vindi þannig að þetta fjúki sem mest í burtu.  Það verður bara að finna aðrar leiðir til að fjármagna þá starfsemi sem þetta er að kosta. Vera með eins og verður í kvöld, vera bara með stafrænar flugeldasýningar.“