Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Sorphirðugjald hækkar um allt að 123%

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Sorphirðugjöld í Reykjavík hækka meira en önnur gjöld borgarinnar um áramótin. Guðmundur B. Friðriksson, skrifstofustjóri á skrifstofu umhverfisgæða hjá Reykjavíkurborg, segir það vera vegna hækkunar á móttökugjaldi og launakostnaði. Dæmi eru um að hækkunin nemi rúmum 123 prósentum.

 

Hækkunin er mismikil eftir tegund sorps og hve mikið magn þess er losað í einu. Til dæmis hækkar sorphirðugjald fyrir losun blandaðs sorps um allt að 37%, sorphirðugjald fyrir losun á pappír og plasti hækkar um allt að 103% og fyrir plast hækkar gjaldið um allt að rúm 123%.

Guðmundur  segir móttökugjald Sorpu hafa hækkað og það skýri hækkun á verði fyrir losun þess.

„Markaðir eru fullir af endurvinnsluefnum. Ef við skoðum verðið á plasti árið 2019 þegar við endurskoðuðum síðast gjaldskrána hjá okkur, þá vorum við að fá greitt tæpar 18 krónur á kílóið. Núna þurfum við að greiða um áramótin 23 krónur rúmar fyrir kílóið.  Sorpa skilar svo plastinu til endurvinnsluaðila erlendis, þeir eru með allt uppfullt af plasti og markaðsverð á plasti til endurvinnslu hefur bara breyst svona hressilega,“ segir Guðmundur.

Hann segir að úrvinnslusjóður dugi engan veginn til að standa straum af þessari breytingu. Hækkun gjalds fyrir hirðu blandaðs sorps sé tilkomin vegna mikillar hækkunar á launakostnaði sorprhirðumanna.

„Við höfum ekki fjölgað mannskap en út af nýjum kjarasamingum er launakostnaður að hækka nokkuð mikið, hann hefur hækkað um rúmar 100 milljónir frá árinu 2019 og okkur ber samkvæmt lögum um meðferð úrgangs að rukka að fullu fyrir allan kostnað við meðhöndlunina.“