Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Söguðu ís með keðjusög til að bjarga upp bílum

31.12.2020 - 12:31
Mynd með færslu
 Mynd: Hjálparsveitin Tintron - RÚV
Tveir jeppar fóru niður um ís innan við Sandkluftarvatn sunnan Skjaldbreiðar í fyrradag. Engum varð meint af en Hjálparsveitin Tintron í Grímsnesi var fengin til að ná bílunum upp í fyrrakvöld. Drjúgan tíma tók að ná bílunum upp og þurfti að saga ísinn með keðjusög.

Fólk var í dagsferð á bílunum inn undir Skjaldbreið. Jóhannes Þórólfur Guðmundsson, formaður Hjálparsveitarinnar Tintron var meðal björgunarmanna í fyrrakvöld. 

„Það er þarna alltaf smá lækjarfarvegur yfir sumartímann sem virðist hafa orðið að stóru stöðuvatni þarna í leysingunum á aðfangadag. Það er það þunnur ís þarna að það brakaði undan öllu þegar þeir keyrðu þarna og á endanum svignaði undan þeim og brotnar niður,“ segir Jóhannes.

Voru þeir í einhverri hættu?

Þeir vildu nú ekki meina það.“

Ökumenn og farþegar komu sér til byggða á þriðja bílnum sem var með þeim í samfloti. Til að ná bílunum upp þurfti að saga ísinn með keðjusög. Sú aðgerð tók um sex klukkustundir.  

„Þegar upp var staðið og það hafðist að koma keðjusöginni í gang, hún var nú ekki samvinnuþýð í frostinu en þegar hún fór í gang var ákveðið að saga rönd í klakann í vel rúmlega bílbreiddinni  þannig að við værum ekki að taka áhættu um að tjóna bílana,“ segir Jóhannes.

Vegurinn var merktur ófær við þjónustumiðstöðina á Þingvöllum, og segir Jóhannes að mikill krapi og bleyta sé á hálendinu eftir leysingar á aðfangadag. Hjálparsveitin hafi þurft að aðstoða fleiri ökumenn seinustu daga vegna krapa og bleytu. 

Mynd með færslu
 Mynd: Hjálparsveitin Tintron - RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Hjálparsveitin Tintron - RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Hjálparsveitin Tintron - RÚV
bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV