Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Nota gögn frá Facebook til að skoða ferðir Íslendinga

31.12.2020 - 14:40
Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Facebook hefur fylgst með hreyfingum fólks og birt gögn um hvernig fólk hefur hegðað sér á hverjum degi síðan í mars. Gögnin eru uppfærð daglega á vef samhæfingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum.

Gögnin sýna breytingu á hreyfingu höfuðborgarbúa á hverjum degi frá og með mars til dagsins í dag, segir Alexander Berg Garðarsson, sérfærðingur í gagnavísindum sem starfar með teyminu sem býr til spálíkan Háskóla Íslands um faraldurinn.

Alexander Berg segir gögnin mjög góð til þess að sjá hversu víðförult fólk er á meðan farsóttin geysar. Glögglega má sjá hvernig Íslendingar bregðast við aðgerðum stjórnvalda til að takmarka fjölda smita. „Þegar aðgerðum er létt og það eru jákvæðari fréttir, eins og var í sumar, þá eru Íslendingar á meiri hreyfingu. Og svo þegar einhverjar þyngri aðgerðir eru settar á þá minnkar hreyfingin.“

Á myndritinu hér að neðan sem Alexander Berg bjó til 30. desember fyrir spálíkanagerðina, má sjá breytingarnar á hegðun fólks.  Í haust var fólk að jafnaði minna á ferli en í viðmiðunarmánuðinum febrúar, en þó meira á ferðinni en í fyrstu bylgju faraldursins í vor.

„Og þetta nær í raun hámarki á þessu tímabili í kringum Þorláksmessu. En það sem gerist strax daginn eftir á aðfangadag og Jóladag að hreyfingin hrynur þokkalega mikið,“ segir Alexander Berg.

Önnur aðferð til að meta ferðir fólks er að skipta höfuðborgarsvæðinu upp í 600x600 metra ramma og telja svo þá sem halda sig innan hvers ramma. Íbúi í Hlíðunum á þess vegna sinn ramma, en þegar hann á erindi í Fossvoginn þarf hann fara um fimm ramma.

Í vor héldu um það bil fjórðungur höfuðborgarbúa sig innan síns 600 metra ramma. Á einni helgi í byrjun apríl heldu ríflega 40 prósent kyrru fyrir og hættu sér ekki langt út fyrir hússins dyr.

Þegar hlýnaði í veðri og veirusmitum fækkaði fór fólk á stjá. Og í svo í seinni bylgju faraldursins í haust dróum við okkur aftur í hlé og um 15 prósent höfuðborgarbúa hélt sig heima. Á jóladag má svo sjá að 35 prósent voru bara heima.

Facebook fær gögnin frá öllum þeim sem leyfa forritinu að fylgjast með GPS-hnitum í snjallsímanum. Gögnin eru ekki persónugreinanleg því öllu er steypt saman og meðaltal reiknað út fyrir hvern dag. „Þannig að það er í raun engin leið til að vinna sig frá þeirri tölu til einhvers einstaklings. En svo er önnur spurning hvernig facebook geymir gögnin. Það er kannski spurning fyrir Mark Zuckerberg,“ segir Alexander Berg.

Upplýsingar fyrir flest ríki heims

Í gögnunum frá Facebook er hægt að finna upplýsingar fyrir flest ríki heims og sundurliðað fyrir helstu svæðaskiptingu innan hvers ríkis. Á myndinni hér að neðan má sjá hversu víðförulir Evrópubúar voru á fyrstu mánuðum faraldursins. Í Frakklandi og Ítalíu og á Spáni var veiran verulega skæð.

Allir þeir sem nota Facebook í snjallsímanum sínum geta valið að deila nákvæmri staðsetningu sinni með fyrirtækinu bandaríska. Í skýringu Facebook með þessum rannsóknargögnum sem um ræðir er aðferðafræðin við söfnun og flokkun gagnanna rædd.

Aðeins fólk sem hefur valið að deila staðsetningarsögu og söfnun staðsetningargagna í bakgrunni er talið. Ef eitthvert svæði í heiminum sem flokkað er í hefur færri en 300 manns er það ekki talið með, til að gæta þess að persónugreinanlegar upplýsingar komi ekki fram.

Hver gagnapunktur er meðaltal allra þeirra gagna sem safnað var á einum sólarhring frá klukkan 8 að kvöldi til sama tíma daginn eftir. Heimarammi hvers og eins er skilgreindur strax í upphafi tímans, að kvöldi hvers dags.