Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Mengun í borginni í gær líklega frá Nesjavallavirkjun

31.12.2020 - 11:55
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RUV
Gildi brennisteinsvetnis var nokkuð hátt í morgun í kringum Nesjavallavirkjun og voru loftgæði þar mjög slæm. Hæst var gildið 1.380,5 míkrógrömm á rúmmetra klukkan átta í morgun og fer nú lækkandi. Mengun sem kom yfir borgina í gær kemur væntanlega frá Nesjavallavirkjun segir heilbrigðisfulltrúi borgarinnar.

Hægt er að fylgjast með loftgæðum á vef Umhverfisstofnunar.

„Það voru mjög há gildi í borginni í gær en það virðist vera sem vindáttin hafi snúist,“ segir Svava Steinarsdóttir, heilbrigðisfulltrúi hjá Reykjavíkurborg og segir marga eflaust hafa tekið eftir lyktinni frá virkjuninni á höfuðborgarsvæðinu í gær.

Loftgæði slæm í Norðlingaholti í gær

„Við fórum upp í mjög háar tölur uppi í Norðlingaholti í gær,“ segir Svava. Mengun berst auðveldlega þangað frá Hellisheiðavirkjun, en vegna vindáttar getur verið að hún hafi borist frá Nesjavallavirkjun.

Þá varð einnig vart við hrímþoku í bænum í gærkvöldi en hún getur myndast í logni og hitahvörfum en einnig af völdum mengunar.

Ekki óvanalegt

„Í svona veðurfari, stillu og frosti er eðlilegt að gildin fari upp,“ segir Breki Logason, sérfræðingur í samskiptamálum hjá Orku náttúrunnar.  Gildin eru langt undir þeim viðmiðunarmörkum sem gilda fyrir vinnusvæði þar sem ekki er byggð og því ekki áhyggjuefni, segir hann.

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV