Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Leit heldur áfram í bænum Ask í Noregi

31.12.2020 - 00:09
epa08911618 A person is lowered from a rescue helicopter near the site where a big landlide hit a residential area in the village Ask, some 40 kilometers north of Oslo, Norway, 30 December 2020. According to the police, several people are still missing after the landslide.  EPA-EFE/JIL YNGLAND  NORWAY OUT
 Mynd: EPA-EFE - NTB
Tíu er enn saknað eftir jarðfallið mikla í norska bænum Ask í Gjerdrum síðustu nótt samkvæmt nýjustu fréttum norska ríkisútvarpsins.

Lögregla segist óttast það versta, að fólkið sé grafið í rústum húsanna en Gisle Sveen sem stjórnaði aðgerðum fyrr í kvöld, segir aðstæður til leitar afar erfiðar því jörðin heldur áfram að gefa eftir. Þó verði leit vitaskuld haldið áfram af krafti.

Á vef VG kemur fram að fimm hús til viðbótar hafi horfið í landfallið sem er sagt vera 700 metrar að lengd og 10 til 20 metrar að breidd. Fjöldi húsa er ónýtur í bænum og um 1500 hafa neyðst til að flýja heimili sín.

Nýjustu fréttir af leitinni eru þær að hundi var bjargað um borð í þyrlu nú á öðrum tímanum í nótt en hann fannst fyrir tilstilli dróna. Áfram verður notast við dróna og þyrlur við leitina en vonir standa til að hægt verði að senda leitarhunda inn á svæðið.

Það hefur þó ekki verið gert ennþá að sögn Karianne Knudsen sem nú stjórnar aðgerðum á vettvangi, enda aðstæður á jörðu niðri mjög varasamar.

Fréttin var uppfærð kl. 2:15