Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fleiri bökuðu og færri fengu sér skötu

31.12.2020 - 08:27
Mynd með færslu
 Mynd: Ásrún Brynja Ingvarsdóttir - RÚV
Fleiri bökuðu smákökur fyrir jólin í ár en áður og þeim fjölgaði sem vitjuðu leiða í kirkjugörðum um hátíðarnar. Þriðjungur landsmanna borðaði skötu, sem eru færri en í fyrra og fleiri máluðu piparkökur. Þetta kemur fram í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup þar sem spurt var um jólavenjur Íslendinga.

Ekki kemur á óvart að færri fóru á jólatónleika, kirkju og jólaböll nú en áður þar sem slíkir viðburðir lögðust að mestu leyti af vegna sóttvarnareglna. Fjórðungur sendi jólakort í bréfpósti og heldur þeim áfram að fækka sem það gera og færri voru með lifandi jólatré en um fyrri jól. Eftir því sem fólk er með minni menntun er það líklegra til að vera með gervijólatré.

71% bökuðu smákökur fyrir jólin sem er mikil fjölgun síðan í fyrra. Ungt fólk er líklegra til að baka smákökur en þeir sem eru eldri og einn af hverjum tíu bjó til konfekt fyrir jólin.  Flestir skreyttu híbýli sín um jólin og þrír af hverjum fjórum skreyttu líka utandyra. Þeir sem eru eldri og tekjuhærri skreyta frekar en þeir sem eru yngri og með lægri tekjur.

Fjórðungur landsmanna skar út laufabrauð og steikti það og hefur aðeins fækkað í þeim hópi. Þá styrktu 69% góðgerðarmálefni sem er lægra hlutfall en fyrir síðustu jól. Næstum því allir, eða 98%, gáfu jólagjafir um þessi jól.