Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fjölmargar skattbreytingar taka gildi um áramótin

31.12.2020 - 15:49
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Ýmsar skattbreytingar taka gildi um áramótin sem snerta bæði heimilin og fyrirtækin í landinu. Samtals eru áhrif þeirra metin til um 18 milljarða lækkunar á tekjum ríkissjóðs og því til viðbótar nema tímabundnir skattastyrkir innan virðisaukaskattkerfisins um 13 milljörðum.

Meðal þeirra breytinga sem munu taka gildi er síðari áfangi breytinga á tekjuskatti einstaklinga. Hann felur í sér lækkun á grunnþrepi tekjuskatts um 3,60 prósentustig og hækkun á miðþrepi tekjuskatts um 0,75 prósentustig. Nýju skattprósenturnar verða því 17% í grunnþrepi og 23,5% í miðþrepi. Við prósenturnar bætist síðan útsvarsprósenta sveitarfélaga.

Barnabætur

Neðri skerðingarmörk barnabóta hækka um áramótin. Það þýðir að barnabætur einstæðra foreldra byrja að skerðast við 351.000 króna tekjur á mánuði í stað 325.000. Hjá fólki í sambúð hækka þessi skerðingarmörk úr 650.000 á mánuði í 702.000.

Tryggingagjald

Í ársbyrjun 2021 mun skatthlutfall almenns tryggingagjalds lækka um 0,25 prósentustig, úr 4,9% í 4,65%. Sú aðgerð er tímabundin í eitt ár og er hluti af aðgerðarpakka stjórnvalda vegna efnahagsáhrifa kórónaveirufaraldursins.

Fjármagnstekjuskattur

Þrenns konar breytingar á fjármagnstekjuskatti einstaklinga taka gildi í byrjun árs 2021. Frítekjumark er tvöfaldað og verða því fjármagnstekjur allt að 300 þúsund skattfrjálsar árið 2021, í stað 150 þúsuns árið áður. Auk þess er sú breyting gerð að frítekjumarkið nær nú einnig til úthlutaðs arðs og söluhagnaðar hlutabréfa í félögum sem skráð eru á skipulegum verðbréfamarkaði eða markaðstorgi fjármálagerninga.

Söluhagnaður af frístundahúsnæði

Þá munu reglur um söluhagnað af frístundahúsnæði til eigin nota vera þær sömu og gilda um íbúðarhúsnæði en þó með kröfu um 7 ára lágmarks eignarhaldstíma.

Erfðafjárskattur

Skattfrelsismark erfðafjárskatts hækkar úr 1,5 milljón í 5 milljónir um áramótin og mun framvegis taka árlegri breytingu miðað við þróun vísitölu neysluverðs. Skatthlutfallið helst óbreytt frá fyrra ári.

Frestun á staðgreiðslu gjalda

Launagreiðendur geta sótt um frestun á allt að tveimur greiðslum vegna afdreginnar staðgreiðslu tekjuskatts, útsvars og tryggingagjalds af launum á árinu 2021. Nýr gjalddagi og eindagi þeirra greiðslna verður 15. janúar 2022.

Krónutölugjöld lækka að raungildi

Krónutölugjöld á eldsneyti, áfengi og tóbak munu lækka að raungildi um áramótin, en þau munu einungis hækka um 2,5% sem er minna en nemur verðbólgu frá síðustu verðlagsuppfærslu. 

Skattastyrkir áfram í gildi

Þá verða ýmsir skattastyrkir, sem tóku gildi um síðustu áramót og eiga að hvetja til notkunar á vistvænum samgöngum, áfram í gildi.