Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Eina flugeldasalan hjá Ísólfi verður á stafrænu formi

Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Stefánsson - RÚV
Ekkert verður af eiginlegri flugeldasölu Björgunarsveitarinnar Ísólfs á Seyðisfirði í ár, en hægt er að styrkja sveitina með því að kaupa stafræna flugelda í fyrsta sinn. Flugeldarnir, sem eru einkar umhverfisvænir, verða svo sprengdir í stafræna tónleikaþættinum áramótasprengjunni á RÚV í kvöld. 

Mikið hefur mætt á Seyðfirðingum eftir að aurskriður féllu á bæinn fyrir jól. Húsnæði björgunarsveitarinnar Ísólfs gjöreyðilagðist í einni skriðunni og því verður ekkert af flugeldasölunni. 

„Þetta er ein okkar stærri fjáröflun sem dettur út þetta árið. Stundum gerast hlutir og þá verður maður bara að taka því. Við náttúrulega lentum í því að fá skriðu á húsið hjá okkur og þá var útséð með flugeldasöluna. Bæjarbúar ætla að hittast og kveikja á kertum hér við lónið og hafa það kósý með blysum og bara svona fallegt,“ segir Helgi Haraldsson, formaður Ísólfs. 

En Ísólfi barst liðsauki úr óvæntri átt og nú hefur verið efnt til sölu á rafrænum flugeldum á síðunni aramot.is. Rafrænu flugeldarnir eru fáanlegir í nokkrum verðflokkum og renna allar tekjur af sölu þessara grænu og umhverfisvænu flugelda beint inn á reikning björgunarsveitarinnar Ísólfs.  Flugeldana má svo sjá í þættinum Áramótasprengjunni á RÚV að loknu áramótaskaupi í kvöld. 

„Það var bara hringt í mig frá OZ og okkur boðið að taka þátt í þessu - þessir rafrænu flugeldar í þessum  frábæra tónleikaviðburði þeirra sem styrkir björgunarsveitina okkar þetta árið. Þetta eru náttúrulega einu flugeldarnir sem við seljum á þessu ári og þeir eru bara í stafrænu formi,“ segir Helgi.

Þátturinn verður fyrsta gagnvirka sjónvarpsútsending sögunnar. Margt af fremsta tónlistarfólki landsins kemur fram í gagnvirku samspili við áhorfendur sem geta skráð sig til leiks á aramot.is 

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV