Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Viðskiptasamningur undirritaður í dag

epa08909138 Parliament in London, Britain, 29 December 2020. Members of Parliament are set to be recalled on 30 December to vote on the governments Brexit deal with the EU.  EPA-EFE/ANDY RAIN  EPA-EFE/ANDY RAIN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Ursula von der Leyen forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og Charles Michel forseti leiðtogaráðs sambandsins undirrita 1246 blaðsíðna viðskipta- og samvinnusamning við Bretland klukkan hálf níu í dag.

Að því búnu verður flogið með samninginn til Lundúna þar sem Boris Johnsson forsætisráðherra undirritar hann af hálfu Breta. Samningurinn tekur gildi á miðnætti gamlársdags eða klukkan 23 að kvöldi í Bretlandi.

Báðar deildir þingsins þurfa því að hafa hraðar hendur við að ræða og staðfesta lög um framtíðarsamskiptin við Evrópusambandið. Á nýársdag lýkur 48 ára dvöl Bretlands innan Evrópusambandsins sem hófst 1. janúar 1973. Sama dag gengu Danir og Írar í sambandið sem taldi þá níu ríki. 

Breska þingið samþykkti inngönguna árið áður án þess að gengið væri til þjóðaratkvæðagreiðslu. Sá háttur var þó hafður á í Danmörku og á Írlandi. Í júní 2016 ákváðu Bretar í þjóðaratkvæðagreiðslu að yfirgefa Evrópusambandið, með 52% atkvæða. 

Við tók ríflega þriggja ára átakatímabil þegar tekist var á um framtíðarsamskipti Breta og sambandsins, sem nú virðast til lykta leidd.