Luke Letlow, nýkjörinn í fulltrúadeild Bandaríkjaþings fyrir hönd Repúblikanaflokksins, lést af völdum Covid-19 í gær. Til stóð að hann tæki við embætti næstkomandi sunnudag.
Letlow var 41 árs, frá Louisiana, og er fyrsti bandaríski þingmaðurinn til að deyja af völdum sjúkdómsins. Hann tilkynnti 18. desember síðastliðinn að hann hefði greinst með veiruna og kvaðst vera í sóttkví heima hjá sér.
Þremur dögum síðar var hann lagður á sjúkrahús þar sem hann andaðist. Á mánudagskvöld höfðu tæplega 20 milljónir Bandaríkjamanna greinst með Covid-19 og tæplega 340 þúsund látist.