Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Svifryk á höfuðborgarsvæðinu um áramótin

30.12.2020 - 17:30
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Ingi Garðarsson - RÚV
Mikil mengun gæti orðið á höfuðborgarsvæðinu um áramótin. Spáð er logni og frosti. Þá fýkur svifryk frá flugeldum ekki í burtu heldur safnast fyrir í andrúmsloftinu.

Í stilltu og köldu veðri getur mengunin orðið mikil

Um áramótin er spáð stilltu og köldu veðri á höfuðborgarsvæðinu. Ef spáin rætist gæti orðið jafn mikil eða meiri mengun en um áramótin 2018-2019. Þá mældist hvergi í heiminum jafn mikil svifryk í loftinu og hér á landi.

Mengandi efni í flugeldum og skottertum

Í flugeldum og skottertum er púður og málmar. Þegar kveikt er þeim fer púðrið og málmarnir út í andrúmsloftið. Þessi efni eru mjög mengandi. Þau geta valdið því að viðkvæmt fólk á erfitt með að anda. Það er sérstaklega slæmt fyrir fólk með sjúkdóma í lungum.

Svava Steinarsdóttir er heilbrigðisfulltrúi Reykjavíkurborgar. „Veðurspáin er þannig núna í ár að það verður logn um áramótin og lítill vindur næsta dag. Síðan er líka frost. Við þessar aðstæður helst svifryksmengunin miklu lengur í loftinu, jafnvel í heilan sólarhring,“ segir Svava.

Eina leiðin til að draga úr mengun um áramótin, segir Svava, er að skjóta upp færri flugeldum og tertum. Það er hægt að styrkja björgunarsveitir með öðrum hætti.

Mengunin getur haft áhrif á heilsu fólks

Svava segir að á nokkurra ára fresti verði svona mikil mengun. „Fyrir tveimur árum vorum við með mjög slæmt ástand. Þá hélst svifrykið hátt í sólarhring. Það var Evrópumet, ef ekki heimsmet, í svifryki.“

Svona mikil svifryksmengun getur haft mikil áhrif á heilsu fólks. „Þeir sem eru til dæmis með asma eða veikir í öndunarfærum geta orðið mjög veikir.“ Síðast þegar svifryksmengun mældist svona mikil voru nokkrir lagðir inn á spítala. „Síðan aukast líkur á að fólk fái heilablóðfalll eða jafnvel hjartaáfall því að svifryksmengunin getur haft áhrif á blóðið og rykagnirnar komist inn í blóðrásina.“

annathr's picture
Anna Sigríður Þráinsdóttir
málfarsráðunautur