Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ólýsanleg tilfinning að komið sé að bólusetningu

Bólusetningu fyrsta skammts á landsbyggðinni er lokið. Gleði og spenna hefur fylgt ferlinu á þessum tímamótum.

Bólusetningu fyrsta skammts er lokið í öllum umdæmum heilbrigðisstofnana landsins og voru síðustu skammtarnir gefnir nú upp úr hádegi. Utan um það bil 900 skammta sem fóru til landspítalands var 3800 var sprautað í fólk um land allt í dag og í gær. Rúmlega 1600 fóru til landsbyggðarinnar í framlínustarfsfólk og fólk í áhættuhópum, sem langflest býr á hjúkrunarheimilum. 

Stund sem beðið var eftir

Sprautuþegar voru kampakátir hvar sem fréttastofu bar að garði. Bjarni Magnús Guðbjarnason á Brákarhlíð í Borgarnesi segir það ljómandi gott að vera búinn að fá sprautuna. 

Á hjúkrunarheimilinu Höfða á Akranesi býr Haukur Ármannsson. 

„Þetta er það sem við erum búin að vera að bíða eftir í töluverðan tíma.“

Vigdís Björnsdóttir sem býr á Höfða segist þá ekki hafa munað eftir því að hún ætti að fara í sprautu þegar hún vaknaði í morgun.

Slapp við veiruna í hópsýkingu í vor og fær fyrst bóluefni í landshlutanum

Ester Hallgrímsdóttir sem býr á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík fékk fyrsta skammtinn á Vestfjörðum í morgun. Hún var sú eina á sínum gangi á heimilinu sem slapp við COVID-19 þegar hópsýking kom þar upp í vor. Hún er búin að vera innilokuð í herberginu sínu í hátt í tíu mánuði. Hið sama má líklega segja um marga aðra íbúa hjúkrunarheimila og fólk í áhættuhópum um land allt. 

Hildur Elísabet Pétursdóttir er framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða.

„Þetta er náttúrulega bara ólýsanleg tilfinning. Mikill léttir og mikil spenna bara. Það er búið að vera kitl í maganum og mikill spenningur síðustu daga.“

Svona skiptast skammtarnir utan höfuðborgarsvæðisins:

Suðurland: 390 skammtar, þar af 60 framlínustarfsfólk. 

Suðurnes: 150 skammtar, þar af 43 framlínustarfsfólk. 

Vesturland: 310 skammtar, þar af 50 framlínustarfsfólk. 

Vestfirðir: 70 skammtar, þar af 15 framlínustarfsfólk. 

Norðurland: 520 skammtar, þar af 100 framlínustarfsfólk. 

Austurland: 170 skammtar, þar af 60 framlínustarfsfólk.