Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

„Maður fer í einhvern gír“

Mynd: RÚV / RÚV
„Maður fer í einhvern gír. Að ætla bara að moka þessu út, klára þetta og þurrka húsið,“ segir Lilja Kjerúlf íbúi á Seyðisfirði sem fékk að snúa aftur í húsið sitt í fyrradag eftir að aurskriður féllu á bæinn fyrr í þessum mánuði.

Lilja segir að sér hafi liðið vel fyrstu nóttina eftir að hún fékk að snúa aftur heim vegna þess að hún hafi verið svo glöð að vera komin í húsið sitt. Síðan hafi henni ekki liðið jafn vel. Hún segir að hún upplifi sig ekki örugga.

„En ég verð að treysta því sem þau segja.  Að þessi sprunga sem er hérna fyrir ofan sé ekki að fara af stað. Mér líður öðruvísi af því það er frost og snjór, ef það væri rigning myndi mér ekki líða vel,“ segir Lilja.

„Þegar maður dettur af baki þá fer maður bara aftur á bak. Svo verð ég að sjá til, ég verð að finna fyrir því hvernig er að vera - ég verð að koma heim og þrífa húsið mitt.“

Lilja segir Seyðfirðinga í mjög mismunandi stöðu.

„Sumir þurfa að fara á bát til að ná í eigur sínar, þeir sem eru á mesta hættusvæðinu hafa ekki getað náð í eigur sínar. Þeim líður ekki vel.“

Lilja segir að sumir þeirra sem hafi fengið að snúa aftur í húsin sín hafi samviskubit gagnvart þeim sem ekki hafi fengið það. „Ég held að þeir sem hafa ekki fengið að fara heim séu sorgmæddir. Við eigum eftir að taka smá tíma í að jafna okkur á þessu.“