Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Inger Støjberg hætt sem varaformaður Venstre

30.12.2020 - 00:21
epa05089609 Danish Minister for Immigration, Integration and Housing Inger Stojberg during a press conference at the EU Commission in Brussels, Belgium, 06 January 2016. Swedish Migration Minister Morgan Johansson, German State Secretary of the Interior
Inger Stöjberg. Mynd: EPA
Inger Støjberg sagði í kvöld af sér sem varaformaður Venstre, stærsta stjórnarandstöðuflokks Danmerkur. Formaðurinn, Jakob Elleman-Jensen, fór fram á að Støjberg léti af embætti varaformanns.

Fyrr í vikunni lýsti Elleman-Jensen yfir að hann styðji að Landsdómur fjalli um mál Støjberg, sem er sökuð um að hafa gefið út ólögleg fyrirmæli er hún fyrirskipaði að láta aðskilja gifta hælisleitendur yngri en átján ára.

Þetta var árið 2016 er Støjberg var ráðherra útlendinga og innflytjenda. Elleman-Jensen skrifaði á Facebook í kvöld að þau gætu ekki unnið saman og það gengi ekki að flokkurinn væri kominn í þá stöðu að formaður gæti ekki reitt sig á stuðning varaformanns.

Fréttaskýrendur í Danmörku segja að miklar deilur sé í Venstre, sem þrátt fyrir nafnið er hægriflokkur og hefur oftar en ekki farið með forystu þegar hægriflokkar hafa verið í ríkisstjórn í Danmörku. Síðast er Lars Løkke Rasmussen var forsætisráðherra frá 2015 til 2019.

Sumir ganga jafnvel svo langt að spá því að flokkurinn klofni.