Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Höggmynd af Abraham Lincoln tekin niður í Boston

Mynd með færslu
 Mynd: cc
Höggmynd sem sýnir nýfrelsaðan þræl krjúpa við fætur Abrahams Lincoln, sextánda forseta Bandaríkjanna, var fjarlægð af Park Square í Boston í dag.

Greint er frá því á vef NPR að ákvörðunin hafi verið tekin á skrifstofu borgarstjóra eftir að 12 þúsund undirrituðu kröfu þess efnis, þar sem höggmyndin þótti gera lítið úr hinum þeldökka manni.

Listaráð borgarinnar mælti með því í júní að styttan yrði tekin niður en hún hefur staðið á torginu frá árinu 1879, eftirmynd styttu sem reist var í Washington-borg þremur árum fyrr.

Smíði styttunnar var fjármögnuð af fyrrverandi þrælum sem höfðu þó lítið um útlit hennar að segja. Tilgangur höggmyndarinnar var að minnast frelsisyfirlýsingar Lincolns árið 1863. 

Á þessu ári hafa allmargar höggmyndir verið fjarlægðar eða eyðilagðar í Bandaríkjunum Eftir að alda mótmæla skall á eftir dauða George Floyds í maí hafa Kristófer Kólumbus, Theodore Roosevelt og Robert E. Lee hershöfðingi verið felldir af stalli sínum.