Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Heimilislausum hefur fjölgað gífurlega

Mynd með færslu
 Mynd: Arnar Páll Hauksson
Sjálfboðaliðar frú Ragnheiðar hafa tekið eftir að minnsta kosti 200 nýjum andlitum meðal skjólstæðinga sinna. Þetta segir Elísabet Herdísar Brynjarsdóttir hjúkrunarfræðingur og verkefnisstjóri hjá frú Ragnheiði, skaðaminnkunarverkefni Rauða krossins. Ekki er búið að gefa út tölur um fjölda þeirra sem leituðu til frú Ragnheiðar á árinu sem er að líða.

Fólk sem hefur verið edrú lengi hefur fallið

Rætt er við Elísabetu í Mannlega þættinum á Rás 1. Á árinu 2019 leituðu 520 til frú Ragnheiðar í rúmlega 4.200 heimsóknum. Tölfræðin fyrir árið 2020 er enn þá í vinnslu en fyrstu niðurstöðurnar benda til að nýjum skjólstæðingum hafi fjölgað gífurlega í ár og gera má ráð fyrir að það séu afleiðingar heimsfaraldursins. „Við tökum eftir einstaklingum sem eru að koma til okkar sem hafa verið edrú í mörg ár og hafa fengið bakslag, fyrst og fremst vegna félagslegrar einangrunar. Og það eru einstaklingar að koma til okkar líka sem hafa aldrei komið áður og hafa séð frétt um okkur einhvers staðar og hafa kannski verið að nota í æð í mörg ár,“ segir Elísabet. 

Tvö hundruð bæst í hópinn á fyrri hluta ársins

Frá janúar til ágúst á þessu ári bættust tvö hundruð manns í hóp þeirra sem leita til frú Ragnheiðar en ennþá á eftir að taka saman tölur fyrir ágúst til desember. „Við greinum mjög mikla aukningu og við greinum líka fjölbreytilegri hóp.“  Áður voru það fyrst og fremst þeir sem voru á götunni sem komu til frú Ragnheiðar en núna er hópurinn fjölbreyttari, t.d. fólk sem á heimili og er jafnvel í námi eða vinnu en notar vímuefni í æð. 

„Ég var sjálf á vakt í bílnum nýlega og þá kom einstaklingur í fyrsta skipti á sinni ævi til frú Ragnheiðar og sagðist hafa notað vímuefni í æð í rúmlega 13 ár en aldrei sagt neinum frá því og þessi einstaklingur var ekki á götunni. Hann í rauninni er bara að opna sig í öruggu rými og treysta einhverjum fyrir því að hann hafi verið að nota í æð. Það eru einstaklingar sem við erum kannski ekki að sjá á hverjum degi.“ Flestir sem leita til frú Ragnheiðar eiga mjög langa sögu.

Sjötíu prósent af þeim 520 sem leituðu til frú Ragnheiðar árið  2019 notuðu vímuefni í æð og komu til að fá hreinan búnað.  Á árinu sem er að líða hefur þeim einnig fjölgað sem koma til að fá næringu. 

Minna framboð af vímuefnum og verð hækkar

Rauði krossinn veitir ekki meðferð við sjúkdómum heldur er frú Ragnheiður sjálfboðaliðaverkefni og eru sjálfboðaliðarnir sérstaklega þjálfaðir til að ræða við fólk og veita sálfræðilegan stuðning á vettvangi. Hvað gerist næst er algerlega í höndum viðkomandi. Ef hann vill ræða um stöðu sína er hægt að tengja hann við rétta úrræðið eða það úrræði sem hentar honum.  

Elísabet segir að áhrif félagslegrar einangrunar séu greinileg og einnig sé meiri skortur á næringu hjá þeim sem lifa við fátækt. Það sé mikið áhyggjuefni. Neyðin sé meiri og framboð af vímuefnum hafi minnkað með þeim afleiðingum að þau hafa hækkað í verði. „Það þýðir að þau þurfa að gera meira til að fjármagna neysluna. Að gera meira þýðir yfirleitt fyrir okkar jaðarsettustu skjólstæðinga meiri kynlífsvinna, meira mansal, meiri afbrot, meiri þjófnaður og svo sjáum við líka að skuldir eru að safnast upp og þá er aukin harka í innheimtu skulda. Og þetta getur haft bara gífurlega alvarlegar afleiðingar sem fylgja okkar hópi lengi.“  

Nauðsynlegt að tryggja öllum heimili

Elísabet segir að ástandið sé áhyggjuefni og að stærsta skaðaminnkandi inngripið nú væri að tryggja öllum heimili, óháð stöðu. Það sé mjög mikilvægt fyrir skjólstæðinga frú Ragnheiðar að eiga sinn stað, komast í sturtu á hverjum degi, eiga öruggt aðgengi að salerni, ísskáp, eldavél og rúmi.

Stórir karakterar létust á árinu

Elísabet segir að árið sem er að líða hafi verið mjög erfitt hjá frú Ragnheiði. Sjálfboðaliðar hafi verið við margar jarðarfarir. Sjálf hefur hún verið við tugi útfara því fjölmargir skjólstæðingar sem hafa tilheyrt hópnum sem leitar til frú Ragnheiðar hafi fallið frá. „Það hafa stórir karakterar kvatt götuna í ár. Hvað heldur þú að þetta séu margir? Ég get ekki sagt til um það en alveg tugir einstaklinga sem ég hef séð persónulega.“ 

Heimilislausir einmana yfir jólahátíðina

Sjálfboðaliðar frú Ragnheiðar undirbjuggu jólahátíðina vel. Þeir standa vaktina alla hátíðina og leggja upp úr því að bjóða fólk velkomið. Þeir eru með jólamat, konfekt og piparkökur og reiðubúnir að ræða málin. Elísabet segir að fólk verði oft einmana yfir hátíðirnar. Margir sem séu á götunni hafi hætt öllum samskiptum við fjölskyldur sínar og sína nánustu.

Frú Ragnheiður er með 120 sjálfboðaliða og er á ferðinni alla daga nema laugardaga. „Flestir sjálfboðaliðar okkar eru hjúkrunarfræðingar sem hafa staðið vaktina í gegnum heimsfaraldurinn og það hefur engin vakt fallið niður hjá okkur allt árið, sem er ótrúlegt.“  Einnig starfa fyrir frú Ragnheiði sjúkraliðar, læknar, félagsráðgjafar, þroskaþjálfar, leigubílstjórar, verkfræðingar og fleiri sem tryggja að hægt sé að veita þessa þjónustu. 

Beðið eftir neyslurýmum

Elísabet gerir sér vonir um að á nýju ári verði hægt að líta til baka og læra af mistökum ársins 2020. Hún vonar að neyslurými verði opnuð á nýju ári, sem lengi hefur verið beðið eftir, og einnig að skaðaminnkunarmiðstöð, neyslurými og vettvangsþjónusta verði samþætt.  „Einstaklingarnir sem við þjónustum eru algerar hetjur. Þau hafa mannréttindi eins og við öll. Það hefur verið gengið fram hjá þeim í mörg ár. Ég vona að árið 2021 verði ár þeirra sem hefur verið litið fram hjá.“ 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV