Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Gætum slegið heimsmet í svifryksmengun um áramótin

30.12.2020 - 12:00
Mynd með færslu
 Mynd: Roven Images - Unsplash
Allt stefnir í að svifryksmengun á höfuðborgarsvæðinu verði yfir heilsuverndarmörkum frá gamlárskvöldi og langt fram á nýársdag. Gangi spár eftir verður mengunin jafn mikil eða meiri en hún var um áramótin fyrir tveimur árum, þegar hún mældist hvergi meiri í heiminum en hér á landi.

Þegar flugeldum er skotið leysast þungmálmar og púður úr læðingi. Þegar við bætist stillt veður og frost, eins og spáð er um áramótin, magnast áhrif efnanna upp. Svava Steinarsdóttir, heilbrigðisfulltrúi Reykjavíkurborgar, segir að eina leiðin til að draga úr þessu sé að skjóta upp færri flugeldum, til séu aðrar leiðir til að styðja björgunarsveitirnar.

„Því miður óttumst við að þetta verði jafnvel fram eftir fyrsta degi ársins. Veðurspáin er þannig núna í ár að það verður logn um áramótin og lítill vindur næsta dag. Síðan er líka frost og við þessar aðstæður helst svifryksmengunin miklu lengur í loftinu þannig að við sjáum fram á að það verði hágildi, jafnvel í heilan sólarhring,“ segir Svava.

Er þetta óvenju lengi og óvenju mikið miðað við áramót? „Þegar veður er svona stillt og frost líka eru verstu aðstæðurnar fyrir svifryk. En jafnframt bestu aðstæðurnar fyrir okkur til að skjóta upp flugeldum og njóta þess að vera úti. Það er á nokkurra ára fresti sem við sjáum virkilega slæmt ástand. Fyrir tveimur árum vorum við með mjög slæmt ástand. Þá hélst svifrykið hátt í sólarhring og var í raun Evrópumet, ef ekki heimsmet í svifryksgildum sem voru að mælast.“

Svava segir að svona mikil svifryksmengun geti haft mikil áhrif á heilsu fólks. „Þeir sem eru til dæmis með asma eða veikir fyrir í öndunarfærum geta hreinlega orðið mjög veikir við þessar aðstæður.“

Hún segir að síðast þegar svifryksmengun mældist svona mikil, um áramótin 2018, hafi nokkrir einstaklingar verið lagðir inn á bráðamóttöku  með mikil óþægindi vegna hennar. „Síðan aukast líkur á því að fólk geti fengið heilablóðföll, jafnvel hjartaáföll þar sem svifryksmengunin getur haft áhrif á blóðið og agnirnar komist inn í blóðrásina. Það eru rannsóknir erlendis sem sýna að stórir svifryksatburðir, það er hækkuð dánartíðni eftir þá.“