Flugeldasala með breyttu sniði í faraldrinum

Flugeldasala með breyttu sniði í faraldrinum

30.12.2020 - 19:45

Höfundar

Það stefnir í svipaða flugeldasölu og síðustu ár og margir ætla að sprengja þetta ár sem allra lengst í burtu. Breyta þurfti skipulagi sölunnar í faraldrinum og nú er í fyrsta sinn hægt að kaupa flugelda á netinu.

Það ríkti mikil óvissa um hvernig flugeldasölu yrði háttað á þessu skrýtna ári og hvort fólk myndi yfir höfuð kaupa flugelda.

„Þetta hefur gengið bara nokkuð vel"

Allir sem rætt var við í dag báru sig þó nokkuð vel. „Þetta hefur gengið bara nokkuð vel og þetta er nokkuð samkvæmt venju,“ segir Jóhann Jóhannsson hjá Súlum á Akureyri. „Rólegir fyrstu dagarnir og svo núna strax eftir hádegi í dag kemur mikill kippur í þetta.“

Breytt skipulag í faraldrinum

Það þurfti að breyta ýmsu við söluna til að minnka álagið og verjast hópamyndun. Opnunartími var lengdur og fólk hvatt til að mæta fyrr á sölustaði til að dreifa álaginu. Þá voru um þrjátíu sölusíður opnaðar hjá björgunarsveitunum og þar hefur sums staðar allt að fjórðungur sölunnar farið fram. „Þetta kallar á að stokka 20 ára gamalt kerfi upp og gera þetta upp á nýtt,“ segir Jóhann.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Á Dalvík var hönnuð sérstök Covid-19 skotkaka

„Allt í lagi að sprengja þetta ár í loft upp“

Nokkrir keyptu vel af flugeldum í dag. Þar á meðal voru Þórður Sigurjónsson og fjölskylda. „Við erum nú að versla fyrir tvö heimili, tvær fjölskyldur. Það er reynt að senda færri út af ástandinu. En það er allt í lagi að sprengja þetta ár í loft upp.“ Berglind Laufdal tekur undir það og vill sprengja 2020 almennilega í burtu. „Maður gerir þetta bara einu sinni á ári. Svo er alltaf verið að tala um að hætta þessu. Þannig að okkur langar að sprengja almennilega.“

Hönnuðu sérstaka Covid-19 skotköku 

Mörg samfélög fengu að finna fyrir Covid-19 á árinu og Dalvík þar á meðal. Þar var útbúin sérstök terta til að kveðja árið. „Já, við fengum heldur betur að smakka á því,“ segir Björn Már Björnsson, hjá björgunarsveitinni Dalvík. „Þetta er mjög vinsæl vara hjá okkur. Fólk vill sprengja Covid með stæl í burtu. Og hún er af skornum skammti, þetta er eigilega bara restin sem við eigum af þessu af því að það er búin að vera mjög mikil aðsókn í þetta.“

Tengdar fréttir

Innlent

Gætum slegið heimsmet í svifryksmengun um áramótin

Innlent

„Vissulega langur tími fyrir dýraeigendur"

Innlent

Takmarka ekki sölu á flugeldum strax

Mannlíf

Færa flugeldasýningar til að forðast hópamyndanir