Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Fimm skammtar en ekki sex náðust úr hverju glasi

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Bólusetning á höfuðborgarsvæðinu ætti að klárast í dag. Sigríður Dóra Magnúsdóttir, umdæmislæknir sóttvarna og framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir að vel hafi gengið að bólusetja í gær. Fimm skammtar náðust úr hverju glasi bóluefnis en ekki sex eins og vonast hafði verið til.

Um fimmtán hundruð voru bólusettir á vegum heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins i gær, þar af tæplega tólf hundruð íbúar á hjúkrunarheimilum, segir Sigríður Dóra. 

„Þetta gekk mjög vel. Við erum mjög ánægð með daginn. Við náðum að bólusetja um 1500 einstaklinga, langflestir eru þeir íbúar hjúkrunarheimila á höfuðborgarsvæðinu, og svo um 330 framlínustarfsmenn í heilsugæslunni,“ segir Sigríður.

Hún segir að bólusetningin hafi ekki farið illa í neinn. Viðbúið sé að í dag verði bóluefnið á höfuðborgarsvæðinu klárað og bólusetningu verði jafnvel lokið fyrir hádegi. Þar með hafi rúmlega tvö þúsund og tvö hundruð manns verið bólusettir á tveimur dögum.

Sigríður segir að húsnæðið við Suðurlandsbraut í Reykjavík hafi virkað vel. Þangað verði almenningur kallaður í bólusetningu ef ekki kemur mikið af bóluefni í einu. Ef það koma stórar sendingar þarf að flytja bólusetningu í stærra húsnæði. Rætt hefur verið um að skólabyggingar og íþróttahús kynnu að verða notuð.

Bólusetningin er skráð mjög nákvæmlega og er skráð úr hvaða glasi hver og einn er bólusettur. Pfizer, sem framleiðir bóluefnið, gefur út að fimm skammtar séu í hverju glasi. Í Bandaríkjunum hafa reynst vera aukaskammtar í glösunum, þannig að í þeim séu sex skammtar, jafnvel sjö. 

„Við náðum sem sagt fimm skömmtum úr hverju glasi. Við náðum ekki sjötta skammtinum af því að það má ekki blanda bóluefni milli glasa ef það næst ekki heill sjötti skammturinn. Þannig að við náðum bara að jafnaði fimm skömmtum,“ segir Sigríður.