Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

„Breska afbrigðið“ finnst í Bandaríkjunum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Maður á þrítugsaldri greindist með hið svokallaða „breska afbrigði“ kórónuveirunnar í Bandaríkjunum í dag.

Maðurinn sem er búsettur í Colorado-ríki er þar með sá fyrsti til að greinast með þetta afbrigði veirunnar þar í landi.

Að sögn Jareds Polis ríkisstjóra er maðurinn nú í einangrun en hann hafði ekki verið á ferðalagi. Nú er unnið að því að rekja ferðir mannsins svo komast megi að því hvort hann hafi smitað fleiri.

Á vef Landlæknisembættisins íslenska segir að afbrigðið einkennist af óvenjumörgum stökkbreytingum á svonefndu gaddapróteini veirunnar auk annarra stökkbreytinga.

Jafnframt segir að faraldsfræðigögn í Bretlandi bendi til að það smitist frekar en fyrri afbrigði, smitstuðullinn sé 0,4 hærri og að dreifing veirunnar sé 70%  meiri.

Búast megi við niðurstöðu rannsókna úr rannsóknarstofum eftir tvær til þrjár vikur en engar vísbendingar séu um að fólk veikist verr eða að afbrigðið leggist frekar á ákveðna hópa en aðra.

Hegðun afbrigðisins er öll enn í skoðun, eftir því sem fram kemur á vef landlæknis, einkum er horft til hvort börn smitist frekar af því og hvort áhyggjur þurfi að hafa af virkni bóluefnis á afbrigðið. Það þyki þó ólíklegt.