Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Allt að 80 sentímetra drulla í kjöllurum á Seyðisfirði

Grjóthnullungar, drulla og vatn allt upp í meters hæð fyllir enn kjallara í Seyðisfirði. Hluti Seyðfirðinga býst við að mega aldrei snúa aftur í húsin sín, 15 fjölskyldur búa enn á rýmingarsvæði. Mikil vinna er framundan í hreinsunarstarfi.

Glaður að húsið standi

Húsið Einsdæmi lenti í minni skriðunum sem féllu á Austurveg.
„Þetta er erfitt. Þetta er búið að taka langan tíma, við vorum í þessu húsi í rúma þrjá tíma í gær og mikið eftir enn.“ segir Elías Þór Höskuldsson.

„Það var möl og sandur á botninum og svo leðja og vatn ofan á. það tók tíma að koma hérna inn.“ Hvað var þetta djúpt? Við sjáum það á veggnum. 80 sentímetrar kannski,“ segir Eyrún Viktorsdóttir.

Eigandi hússins telur að allt sem var inni í kjallaranum sé ónýtt. „Þetta er meira en maður átti von á. En maður er búinn að sjá nágrannann fara illa út úr þessu þannig maður er bara glaður að húsið standi.“ segir Björn Brynjólfsson eigandi hússins.

Ekki fyllilega örugg heima hjá sér

Lilja Kerúlf býr við Austurveg og mátti snúa heim fyrir tveimur dögum. Hún metur verðmætin í kjallaranum á nokkur hundruð þúsund. Sjálfsábyrgðin er 200 þúsund.

Finnst þér þú vera örugg í húsinu þínu núna? „Nei í raun og veru ekki, ég verð að treysta því sem þau segja að þessi sprunga sem er hérna fyrir ofan sé ekki að fara að stað. Mér líður öðruvísi af því það er frost og snjór. Ef það væri rigning þá myndi mér ekki líða vel,“ segir Lilja.

Dæmi eru um að Seyðfirðingar treysti sér ekki heim. „Þegar maður dettur af baki þá fer maður aftur á bak. Svo verð ég bara að sjá til. Ég verð að finna hvernig það er að vera. Ég varð að koma heim,“ segir Lilja. Ljóst er að hreinsunarstarf á Seyðisfirði mun taka marga mánuði.

„Ég er bara heimilislaus“

Rýmingu á Seyðisfirði var aflétt að hluta í gær. Þá máttu íbúar í um þrjátíu húsum snúa heim, eftir tveggja vikna fjarveru. Nú er rauða svæðið á þessu korti hættusvæði. „Það eru alls konar tilfinningar sem eru að brjótast fram. Bæði hræðsla og reiði. Ótrúlega mikið sjokk fyrir marga. Síðan er fólk sorgmætt. Margir sem eru dofnir, “ segir Sesselja Hlín Jónasardóttir, rekstrarstjóri Herðubreiðar.

Enn mega um fimmtán fjölskyldur á Seyðisfirði ekki snúa heim. Meðal þeirra er Sesselja Hlín. „Ég er bara heimilislaus. Og mjög líklega til frambúðar, það er búið að segja við mig að þetta svæði sé líklega ekki búanlegt héðan í frá. Þannig að ég bara held í vonina að það falli ekki skriða á húsið sem ég bý í og allt dótið mitt hverfi. Þetta er búið að vera svolítið þungur tími fyrir okkur,“ segir hún.