Allir mega hittast og faðmast í þessu partýi

Mynd: Samsett / RÚV

Allir mega hittast og faðmast í þessu partýi

30.12.2020 - 13:55

Höfundar

Smituð og ósmituð mega hittast og fagna saman í gamlárspartýi strax á eftir Áramótaskaupinu, þegar haldinn verður dansleikur í huliðsheimum sem öllum Íslendingum er boðið á. Einvalalið tónlistarmanna kemur fram sem hliðarsjálf sitt á tónleikunum sem sýndir verða á RÚV. Öll mega mæta, dansa, hópast saman og hitta fólk í sýndarveruleika.

Jólin hafa verið með óhefðbundnum hætti hjá flestum vegna samkomutakmarkana og sóttvarnaráðstafana. Ljóst er að þau sem hafa haft þann sið að fagna nýju ári í margmennum gamlárspartýum verða að fresta því fram á næsta ár þegar fólk má aftur hópast saman. Í staðinn fyrir að sitja heima og skála við fjölskyldu og vandamenn yfir alnetið verður þó hægt að drífa vinahópinn með í partý, nefnilega sýndarveruleikapartý.

Strax eftir Áramótaskaupið verður haldinn mikill áramótafögnuður á RÚV og fólki býðst að taka beinan þátt í honum og jafnvel sjá sjálft sig á skjánum. Sigur Rós, Stuðmenn, Kaleo, Grýlurnar, Auður, Bríet og Friðrik Dór koma öll fram og verða á svæðinu sem tölvuteiknaðar fígúrur, þeirra sýndarveruleikasjálf. Á vefsíðunni áramót.is er hægt að búa til sitt eigið tölvusjálf, dressa sig upp og taka svo þátt í veislunni. Jakob Frímann Magnússon, einn þeirra sem stendur að uppátækinu, kom í Síðdegisútvarpið og sagði frá uppátækinu.

Viðleitni manneskjunnar til að gera sig ódauðlega

„Það er þessi viðleitni mannskepnunnar til að gera sig ódauðlega með einum og öðrum hætti. Og það er kannski kveikjan að því, að koma sér, áður en það er of seint, í aðra vídd,“ segir Jakob sem tekur fram að hér sé þó auðvitað ekki átt við hefðbundna vídd hinna framliðnu heldur þrívíddarheiminn. „Þar getur þú haft fulla stjórn á þinni tilvist.“ Sjálfur velur maður klæði og útlit á sínu hliðarsjálfi og svo þarf ekkert að gera annað en að mæta til leiks.

Gat ekki tekið Stuðmannahoppið fyrr en tæknin var tilbúin

Jakob hefur gælt við þessa hugmynd í tvo áratugi, allt frá því Stuðmenn sendu frá sér plötuna Hvílík þjóð. Þá setti Gunnar Karlsson hljómsveitina í þrívídd og kom henni fyrir um borð í MS Varðbergi. „Við vorum þá búnir að kynnast möguleikum motion capture eða skynskæða. En þá var bara tæknin svo löt að ef ég tók mitt stuðmannahopp, lét höku nema við hné nema við höku, þá í staðinn fyrir að það gerðist á sekúndubroti eins og í raunheimum tók það tíu sekúndur að ná saman.“ Jakob áttaði sig á að hann gæti lítið gert annað en að bíða þar til tæknin hysjaði upp um sig. En hann hefur ekki setið auðum höndum. Ásamt Guðjóni Má Guðjónssyni í Oz hefur hann síðustu ár verið að skoða möguleikann á þessu og fylgjast með framþróun tækninnar. Og nú er biðin á enda.

„Ég tala yfirleitt um hann í þolfalli og kalla hann Guð Má því þetta er allt á guðlegu nótunum. Jakob er auðvitað samsett úr tveimur öðrum, Jahve og Kopf svo þetta er Guðs höfuð og Guð má.“ Eftir fjölmarga fundi og samtöl sagði Guð Már loks: „Jakob, ég ætla ekki að benda þér á neina útlendinga lengur, ég er tilbúinn í þetta núna.“ Því ákváðu félagarnir að kýla á þetta. Það kostar ekkert að vera með og öll klæðin eru gjaldfrjáls en það er hægt að kaupa rafræna flugelda til að skjóta upp á miðnætti.

Nokkrar Hörpur í nýrri vídd

„Þið sjáið ykkur skunda eftir rauða dreglinum til mannfagnaðar. Þið farið sjáf með himinskautum, á betri buxunum vonandi. Svo brestur á með mannfagnaði sem er samblanda af því sem við höfum lesið um í þjóðsögum um álfheima og álfakonungafagnaði og því sem við þekkjum úr Hörpu, Þjóðleikhúsinu og Iðnó.“

Tónlistarmennirnir hafa hamskipti eins og gestirnir en verða sjálfum sér líkir og auðþekktir. Svo hafa verið reist svið í sýndarheiminum og lýsir Jakob því sem svo að búið sé að byggja nokkrar Hörpur í nýrri vídd og allar verði þær til afnota.

Engin smithætta, ekkert nálgunarbann

Tónlistarmenn hafa sannarlega fundið fyrir áhrifum heimsfaraldursins þar sem flestar uppákomur og mannfagnaðir hafa verið blásin af vegna samkomutakmarkana. Hér fá þeir aftur á móti tækifæri til að troða upp fyrir fjölda manns án þess að þurfa að hafa áhyggjur af smitum. „Okkur fannst tilvalið að finna leið til að koma þessu fólki í vinnu með löglegum og siðlegum hætti, á sviðum þar sem hvergi myndi berast smithætta og nálgunarbönn væru úr gildi gengin. Tveggja metra reglan skiptir ekki lengur máli,“ segir Jakob.

Ekkert víst að þetta klikki

Hann viðurkennir þó að hann sé með örlítinn sviðsskrekk fyrir tónleikana, þann fyrsta síðan hann hitti Englandsdrottningu í Buckingham-höll á tíunda áratugnum. „Það sem blasir við á gamlárskvöld kemst næst því að veita mér örlítinn kvíðahnút í maga því þarna er ég að feta slóðir sem ég hef aldrei fetað. En það er ekkert víst að þetta klikki,“ segir hann í lokin.

Rætt var við Jakob Frímann Magnússon í Síðdegisútvarpinu á Rás 2. Áramótasprengjan 2020! er á dagskrá RÚV annað kvöld klukkan 23:35.