Að minnsta kosti 26 létust og tugir særðust þegar sprengjum var varpað í dag á flugvöllinn í hafnarborginni Aden í Jemen. Skömmu fyrir árásina lenti þar flugvél sem kom frá Sádi Arabíu með ráðherra í nýrri ríkisstjórn landsins.
Arabíska sjónvarpsstöðin Al Jazeera hefur eftir sjónarvottum að ráðherrarnir, þar á meðal Maeen Abdulmalik forsætisráðherra, hafi verið fluttir í skjól í forsetahöllina í Aden.
Samkomulag um hina nýju ríkisstjórn Jemens náðist í Sádi-Arabíu 18. desember. Að henni standa fráfarandi stjórn sem viðurkennd var á alþjóða vettvangi og aðskilnaðarsinnar í suðurhluta landsins.