Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

World Class segir upp 90 starfsmönnum

29.12.2020 - 14:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Níutíu starfsmönnum hefur verið sagt upp hjá World Class og taka uppsagnirnar gildi núna um áramótin. Fólkið er í ýmsum störfum innan fyrirtækisins og í lægra starfshlutfalli en 70%. Björn Leifsson, eigandi og framkvæmdastjóri World Class segist vonast til að geta ráðið sem flesta aftur.

„Við vorum búin að segja upp 50 manns áður, það var í byrjun nóvember. Núna þurftum við að segja upp öllum sem voru í starfshlutfalli undir 70%, sem hlutabótaleið nær ekki yfir,“ segir Björn.

Hann segir að fyrirtækið hafi orðið af 1,3 milljörðum í tekjum það sem af er þessu ári. Ekki sé hægt að halda svona áfram og uppsagnirnar hafi því miður verið það eina í stöðunni. Björn segir að þeir sem sagt hafi verið upp hafi verið í ýmsum störfum, en aðallega var það starfsfólk í afgreiðslu og barnagæslu. Með þessum uppsögnum hefur tæpum helmingi starfsfólks World Class verið sagt upp, en eftir hjá fyrirtækinu eru nú um 200 starfsmenn. Líkamsræktarstöðvar hafa verið lokaðar frá 5. október og verða það að minnsta kosti til 12. janúar, en þá rennur núverandi sóttvarnareglugerð úr gildi.

Er líklegt að fólkið verði ráðið aftur? „Ef við fáum að opna, já. En ég sé ekki að það verði á næstunni. Eins og ég hef sagt áður þá finnst mér þetta vera fáránleg mismunun, að það megi vera íþróttir alls staðar og sundlaugar opnar en líkamsræktarstöðvar megi ekki vera opnar. Við getum verið með grímuskyldu, við getum passað bæði sóttvarnir og fjarlægðarmörk. Við höfum verið með lokað í um fimm mánuði það sem af er þessu ári. Það er gríðarlega erfitt að vera í þessari stöðu,“ segir Björn.