Vonar að starfsemi heilsugæslunnar gangi greiðar
Nanna Kristinsdóttir, fagstjóri lækninga, heimilislæknir og svæðisstjóri á Heilsugæslustöðinni í Breiðholti, var bólusett í dag. „Ég held að starfsemin eigi eftir að ganga greiðar hjá okkur. Við erum öruggari, erum varin og smitumst síður,“ segir hún. Þó sé töluvert langt í land. „Það verður ekki fyrr en það verður komið hjarðónæmi sem samfélagið fer af stað á eðlilegan hátt aftur.
Hún telur óhætt að segja að starfsemin á heilsugæslunni hafi verið þyngri í vöfum undanfarna mánuði en venjulega. „Við til dæmis erum enn að vinna í hólfaskiptingu svo við eigum ekki eðlileg samskipti, starfsmannahóparnir. Og við sjáum aðeins færri sjúklinga,“ segir hún.
„Það er allt að gerast“
„Mér finnst alveg ótrúlegt að sjá þetta,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra um skipulagið í kringum bólusetningu gegn kórónuveirunni fyrsta daginn.