Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Vonar að starfsemin gangi greiðar eftir bólusetningu

Mynd: RÚV / RÚV
Um það bil 350 framlínustarfsmenn á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins verða bólusettir gegn kórónuveirunni í dag, á fyrsta degi bólusetninga. Nanna Kristinsdóttir, fagstjóri lækninga, vonar að starfsemi heilsugæslunnar gangi greiðar eftir bólusetningu. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir magnað að sjá hversu vel framkvæmdin gengur fyrir sig og Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslunnar, segir að dagurinn í dag sé eins konar generalprufa í bólusetningum.

Vonar að starfsemi heilsugæslunnar gangi greiðar

Nanna Kristinsdóttir, fagstjóri lækninga, heimilislæknir og svæðisstjóri á Heilsugæslustöðinni í Breiðholti, var bólusett í dag. „Ég held að starfsemin eigi eftir að ganga greiðar hjá okkur. Við erum öruggari, erum varin og smitumst síður,“ segir hún. Þó sé töluvert langt í land. „Það verður ekki fyrr en það verður komið hjarðónæmi sem samfélagið fer af stað á eðlilegan hátt aftur. 

Hún telur óhætt að segja að starfsemin á heilsugæslunni hafi verið þyngri í vöfum undanfarna mánuði en venjulega. „Við til dæmis erum enn að vinna í hólfaskiptingu svo við eigum ekki eðlileg samskipti, starfsmannahóparnir. Og við sjáum aðeins færri sjúklinga,“ segir hún. 

„Það er allt að gerast“

„Mér finnst alveg ótrúlegt að sjá þetta,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra um skipulagið í kringum bólusetningu gegn kórónuveirunni fyrsta daginn.

Mynd: RÚV / RÚV

 „Og það er magnað að sjá þetta sterka skipulag og þessa flæðilínu. Hérna er verið að prufukeyra það hvernig það virkar að bólusetja mjög marga á mjög stuttum tíma. Heilsugæslan er að standa sig gríðarlega vel,“ segir hún. Heilbrigðisyfirvöld hlakki til að geta samið um fleiri skammta. „Það er allt í gangi, það er allt að gerast og þetta gengur vel,“ bætir hún við. 

Nú er bara að bíða og vona

Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir að skipulagið á bólusetningum í dag endurspegli skipulagið sem verði viðhaft næstu mánuði: „Já, það er einmitt svona, þetta er svona generalprufa. Fólk fer inn, strikamerkið er lesið, svo er bólusett, þú bíður í smá stund og ferð út aftur. Það skiptir miklu máli að við erum stutt hérna inni en samt eins lengi og þarf af öryggisástæðum.“

Mynd: RÚV / RÚV

Hann segir að nú sé allt tilbúið til að taka á móti stærri skömmtum. „Já, og ef við getum gert það hér þá er þetta praktísk leið. Ef við fáum fleiri skammta þá erum við með allt að sjö stóra staði sem við getum nýtt, í samráði við sveitarfélögin og borgina,“ segir hann. Nú sé bara að bíða og vonast til að efnið komi sem fyrst. „Því þetta er mjög gagnlegt,“ segir hann. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV