Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

„Vissulega langur tími fyrir dýraeigendur"

29.12.2020 - 11:18
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Matvælastofnun hvetur fólk til að bíða með að skjóta upp flugeldum þangað til á gamlárskvöld. Sölustaðir flugelda voru opnaðir um allt land í gær og þegar hafa borist tilkynningar um sprengingar í öllum hverfum í höfuðborginni.

Hvetur fólk til að sýna dýrum og eigendum þeirra þá tillitssemi

Almenn notkun flugelda er leyfð hér á landi frá 28. desember til 6. janúar frá tíu á morgnana til tíu á kvöldin og alla nýársnótt. Vel yfir 100 flugeldamarkaðir um land allt  voru opnaðir í gær og strax í gærkvöldi bárust kvartanir til lögreglu yfir hávaða. Matvælastofnun beinir því til almennings að sýna dýrum og eigendum þeirra þá tillitssemi að skjóta aðeins upp á gamlárskvöld og á þrettándanum. Þóra Jóhanna Jónasdóttir er dýralæknir hjá MAST. 

„Það þarf sérstaklega að beina því til foreldra og forráðamanna og þeirra sjálfra að virða tímamörkin sem að leyfilegt er að skjóta flugeldum, þannig að þeir sem eiga dýr geta búið sig undir lætin þá daga," segir Þóra.

Ýmis einföld ráð geta komið í veg fyrir mikinn ótta

Þá eru dýraeigendur beðnir að huga vel að dýrum sínum. Hún segir ýmis einföld ráð geta komið í veg fyrir mikinn ótta meðal dýra. 

„Að hafa dýrin inni, byrgja gluggann með gardínum, kveikja ljós, hafa á músík og ekki skilja þau eftir ein ef þau eru hrædd. Og varðandi búfénað og hesta að þá er ef dýr eru úti þá er að gefa þeim vel og hafa þau í aðstæðum sem þau þekkja vel. Ef þau eru inni þá hafa ljós og kannski músík."

Finnst ykkur þetta of langur tími sem heimilt er að sprengja flugelda?

„Þetta er vissulega langur tími fyrir dýraeigendur, þegar dýr eru hrædd en erfiðast er þegar fólk virðir ekki tímamörkin."