
„Þetta er bara ótrúlegur dagur“
Alma segir að það hafi verið mikil stemmning í morgun þegar bólusetning hófst. Í dag hafi hún farið á Suðurlandsbraut þar sem Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hafi verið að æfa ferlana í kringum bólusetningu á almenningi: „Og það er svo mikil stemmning, og það er svo mikil gleði og það eru allir með. Þetta er bara ótrúlegur dagur.“
Hún segir að það hafi ekki verið fyrr en fyrir tveimur mánuðum að heilbrigðisyfirvöld fóru að trúa að byrjað yrði að bólusetja á þessu ári. „En ég held að virknin hafi farið fram úr björtustu vonum. Og svo er lítið um aukaverkanir eftir því sem við vitum best. Þetta er búið að prófa á tugum þúsunda,“ segir hún.
Samvinnan milli vísindamanna og stofnana sé ótrúleg. „Allir hafa verið að deila sínum upplýsingum og eftirlitsstofnanir verið með,“ segir hún. Hingað til hafi hraðametið í þróun bóluefnis sennilega verið fjögur ár.