Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Telur að hömlurnar fjúki í febrúar á ári fjölskyldunnar

Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan
„Ég held að árið 2021 verði ár fjölskyldunnar,“ þetta segir Anna Birna Jensdóttir, hjúkrunarforstjóri á hjúkrunarheimilinu Sóltúni. Íbúar heimilisins verða bólusettir á morgun og það stendur til að flagga og baka köku. Anna Birna segir að árið 2020 hafi verið ólíkt öllum öðrum sem hún hefur upplifað á löngum ferli og að sumt í starfinu eigi eftir að breytast til frambúðar. Hún leyfir sér að vona að hægt verði að lyfta hömlum af hjúkrunarheimilum strax í febrúar.

Býst við að flestir þiggi sprautuna

Það urðu stór tímamót í dag, þegar byrjað var að bólusetja framlínustarfsfólk í heilbrigðiskerfinu og íbúa á hjúkrunarheimilum gegn veirunni sem veldur Covid-19.Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu hefur undanfarið átt fundi með fulltrúum hjúkrunarheimila til að skipuleggja bólusetninguna. Á morgun verður efnið, sem íbúar Sóltúns fá, blandað hjá heilsugæslunni á Suðurlandsbrautinni. „Við eigum von á fyrstu sendingu um morguninn, lögreglan kemur með þetta til okkar og við tökum á móti og kvittum fyrir. Svo er alveg búið að telja nákvæmlega hversu marga á að bólusetja í fyrstu sendingu og við förum bara í gang með það, það eru þá hjúkrunarfræðingar í sóttvarnarhólfum sem bólusetja þá íbúa sem eru í þeim hólfum þannig að það er bólusett á nokkrum stöðum í einu og fylgst með fólki í góðan tíma á eftir, allavega upp undir hálftíma á meðan það er að jafna sig en flestir vita varla af því að þeir eru að fá stungu og eins og einhver sagði, það að fá bólusetningu er ekkert miðað við að láta taka sýni í skimun.“

Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Þorleifur Hauksson, íbúi í Seljahlíð í Reykjavík fékk fyrstu sprautuna í dag.

„Fólk skynjar þessa virðingu og er þakklátt“

Fyrir helgi ræddi starfsfólk Sóltúns við alla íbúana 92 og kannaði afstöðu þeirra til þess að fá sprautuna. Anna segir að fólk hafi almennt tekið vel í það. Flestir hafi látið bólusetja sig við inflúensu í haust og hún reiknar með því að allir þiggi bóluisetninguna á morgun. Það verður bólusett í setu- og borðstofum á hverri deild. „Þar getum við haft yfirsýn og þetta verður svolítill viðburður í hverju hólfi fyrir sig. Við ætlum að hafa tertu og flagga og það bara er ástæða til. Við erum að sjá ljós þarna og því er ekki að leyna að það er miklu oki af öllum létt, bæði starfsfólki og íbúum að sjá fyrir hornið á þessu þó við vitum að það séu einhverjar vikur ennþá.“ Líklega segir Anna að bökuð verði peruterta eða einhver ekta rjómaterta. „Eitthvað hefðbundið sem er í uppáhaldi hjá þessari kynslóð, meðalaldurinn hjá mér er 87 ár. Mér finnst fólk svolítið spennt, það er búið að fylgjast með fréttum og það er mikil virðing fólgin í því að það séu íbúar hjúkrunarheimilanna, elsta fólkið sem er í hvað mestum áhættuhóp, sem er að fá fyrstu bólusetninguna. Fólk skynjar það alveg og er þakklátt fyrir það.“ 

Brennir engar brýr

Bólusetningin er ekki skylda. Anna Birna segir að vakni einhverjar áhyggjur sé reynt að fræða fólk og útskýra eftir bestu getu. Þó fólk þiggi ekki bólusetningu núna brennir það engar brýr að baki sér, það getur fengið hana seinna. Mikilvægast er að ná að bólusetja sem flesta af þeim tæplega 3000 manns sem búa á hjúkrunarheimilum til að ná upp hjarðónæmi. 

EInstakt ár

Anna Birna hefur starfað í öldrunarþjónustu í um fjörutíu ár og segir árið í ár engu öðru líkt. „Þetta er náttúrulega alveg gífurleg reynsla, það hefur reynt mjög á þekkingu allra og að fólk sé tilbúið til þess að horfa út fyrir boxið. Við höfum þurft að gera mjög marga hluti öðruvísi og það mun margt breytast eftir þetta, bara nýjar aðferðir og önnur nálgun og annað en það sem mér finnst standa upp úr er þessi samstaða, að fólk hefur skilið og áttað sig á því að þetta verkefni er bara allt öðruvísi en það sem við höfum gengið í gegnum áður sem núna erum starfandi. Hluti íbúa hefur gengið í gegnum ýmsar þrengingar eins og harðindi, eldgos, heimstyrjöldina og allt það en við sem erum núna starfandi kannski í heilbrigðisþjónustunni við höfum kannski ekki séð neitt svona.“ 

epa08849659 People wearing protective face masks stand in front of Christmas tree at Old Town Square in Prague, Czech Republic, 28 November 2020. The largest Christmas market at the Old Town Square in Czech capital was cancelled due to the coronovirus pandemic measures. The only Christmas tree is standing on the square and was light up on first Advent weekend.  EPA-EFE/MARTIN DIVISEK
 Mynd: EPA
Árið 2020 er komið í sögubækurnar.

Hún segir heilbrigðisstarfsfólk hafa staðið þétt saman, þvert á greinar og þjónustustig og fórnað ýmsu, bætt við sig vinnu þegar aðrir fóru í sóttkví og kannski ekki átt mikið einkalíf. Fólk hafi raunverulega helgað sig starfinu. Átta starfsmenn á Sóltúni fengu veiruna, en allir smituðust utan vinnustaðarins og enginn smitaði út frá sér á heimilinu. Anna Birna segir stjórnvöldum hér hafa tekist vel upp í baráttunni og hún er þakklát fyrir handahófsskimun Íslenskrar erfðagreiningar, en nokkrir starfsmannanna greindust þar og höfðu ekki hugmynd um að þeir hefðu smitast. 

Ætla áfram að bjóða upp á þjónustu í nærumhverfinu

Sumar breytingarnar á Sóltúni eru komnar til að vera. Heimilinu var skipt upp í sóttvarnarhólf og í stað þess að iðjuþjálfun, sjúkraþjálfun og félagsstarf færi fram miðlægt, í stórum sal, færðist það meira inn á hverja deild. Þetta hentaði sumum mjög vel og þátttaka í starfinu jókst. „Við höfum séð hliðar á fólki sem við héldum að það ætti ekki til og þau hafa notið þess. Þetta segir okkur strax að til að ná til fleiri þá munum við hafa þetta með fjölbreyttari hætti í framtíðinni.“

Mynd með færslu
 Mynd: EBU
Í þjálfun.

Íbúar oft rólegri en ættingjar

Klúbbastarf færðist líka inn á deildir, haldin hrekkjavökpartí og jólahlaðborð á hverjum stað. Heimsóknabann og takmarkanir reyndu auðvitað á en Anna Birna segir íbúa þó hafa tekið þessu öllu með ró, jafnvel meiri ró en ættingjar þeirra enda lífsreyndari. Þá hafi verið reynt að koma sérstakleg til móts við maka íbúa. Smám saman sé nú verið að slaka á takmörkunum, þannig var fleirum leyft að koma yfir jólin. 

2021 verði ár fjölskyldu og vina

Hvenær verður hægt að hleypa öllum sem vilja inn og út, án takmarkana, hvenær verður hömlunum endanlega lyft af hjúkrunarheimilum landsins? Það er ekki nóg að bólusetja íbúa, það þarf líka að bólusetja starfsfólk því ef upp kemur hópsmit meðal þess þá er enginn til að sinna íbúunum. Starfsmenn sem sinna íbúum beint eru í forgangshópi fimm. „Ég er nú frekar bjartsýn og finnst alveg snilld að við skyldum ná að fá þetta fyrir áramót þannig að ég held það sé nú fyrr heldur en tölur sýna. Ég myndi halda að bara í janúar yrði fyrsta bólusetning starfsmanna og í febrúar næsta bólusetning. Þá fer þetta að vera allt annað mál, þá kemur ljósið og það er svo yndislegt hérna á Íslandi að það er svo mikil fjölskyldurækni, við erum enn svo tengd. Víða erlendis er fólk svo eitt því fjölskyldurnar eru víða um lönd og það er ekki þessi daglega nánd en hérna er fjölskyldan svo samheldin og ég held þetta verði ár fjölskyldunnar, gleðinnar og vina, að geta komið saman og það er bara mikið til að hlakka til.“