Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Mótmælt í Svartfjallalandi

29.12.2020 - 06:25
epa08908055 People shout slogans during a protest against the new government in Podgorica, Montenegro, 28 December 2020. Several thousand rallied in front of the Parliament in Podgorica, accusing the new government of being pro-Serb because of its plans to amend the disputed religious property law.  EPA-EFE/BORIS PEJOVIC
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Þúsundir söfnuðust saman í við þinghúsið í miðborg Podgorica, höfuðborg Svartfjallalands í gær og mótmæltu boðuðum breytingum á lögum um kirkjueignir sem til umræðu voru í þinginu. Lögin færa serbnesku rétttrúnaðarkirkjunni mikinn fjárhagslegan ávinning og mátti heyra mótmælendur kyrja slagorð á borð við „Landráð!" og „Þetta er ekki Serbía!"

 

Fyrstu mótmælin gegn nýrri ríkisstjórn

Mótmæli gærdagsins voru fyrstu fjöldamótmælin í Svartfjallalandi eftir stjórnarskipti sem þar urðu á dögunum, í kjölfar þess að flokkar sem halla sér frekar að Serbum en Evrópusambandinu náðu naumum meirihluta í þingkosningum í ágúst.

Eitt fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar var að leggja fram frumvarp til breytinga á lögum um kirkjueignir, sem fyrri ríkisstjórn innleiddi seint á síðasta ári. Þau lög voru og eru umdeild og kveða á um breytingar sem gætu leitt til þess hundruð klaustra serbnesku rétttrúnaðarkirkjunnar í Svartfjallalandi verði að lokum í eigu svartfellska ríkisins.

Nýja ríkisstjórnin, sem er hvort tveggja hliðholl Serbum og höll undir serbnesku rétttrúnaðarkirkjunna, er mótfallin því að ríkið yfirtaki klaustrin og vill breyta lögunum til samræmis við það.

Sterk og rótgróin tengsl við Serbíu og serbneska kirkju

Um þriðjungur Svartfellinga er serbneskur að ætt og uppruna og serbneska rétttrúnaðarkirkjan er stærsta og áhrifamesta trúarhreyfingin í landinu. Fyrri ríkisstjórn, undir forystu Milos Djukanovics forseta, hefur lagt sig fram um það árum saman að draga úr áhrifum hvorttveggja Serba og serbnesku rétttrúnaðarkirkjunnar, en efla svartfellska rétttrúnaðarkirkju og tengslin við Vesturlönd í staðinn.

Flokkur hans, Lýðræðislegi sósíalistaflokkurinn, hafði farið nánast óslitið með völd í landinu í þrjá áratugi þegar hann tapaði þingmeirihlutanum í sumar í hendur bandalags hægri-, íhalds- og þjóðernisflokka. Þeir vilja treysta á ný böndin við stjórnvöld í Belgrað og Moskvu, þrátt fyrir að landið hafi gengið í Atlantshafsbandalagið árið 2017, auk þess sem þeir hafa serbnesku rétttrúnaðarkirkjuna í hávegum.