Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Laun þingmanna hækka um 40.000 krónur

29.12.2020 - 15:59
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Laun þingmanna hækka um 40.000 krónur um áramótin, á sama tíma og laun samkvæmt lífskjarasamningnum hækka um 15 til 24 þúsund krónur. Launahækkunum þingmanna sem taka áttu gildi í sumar var frestað.

Í lífskjarasamningunum var samið um ákveðnar launahækkanir sem taka gildi í skrefum. Nú um áramótin hækka laun um 15.750 til 24.000 krónur.

Samkvæmt upplýsingum úr fjármálaráðuneytinu hækka laun þingmanna hins vegar nokkuð meira um áramótin, í krónum talið. Samkvæmt lögum taka laun þingmanna breytingum 1. júlí á hverju ári, í samræmi við breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins samkvæmt útreikningum Hagstofu Íslands.

3,4% hækkun

Síðasta hækkun tók gildi 1. janúar síðastliðinn og var hún þá 6,3%. Þá höfðu laun þingmanna ekki hækkað frá síðari hluta árs 2016, samkvæmt upplýsingum úr ráðuneytinu. Laun þingmanna hefðu átt að hækka í júlí á þessu ári, en ákveðið var að fresta þeirri hækkun til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Hækkunin tekur í staðinn gildi nú um áramótin, og nemur hún þá 3,4 prósentum. Það þýðir að þingfararkaup hækkar úr 1.170.569 krónum í 1.210.368 krónur, eða um rétt tæpar 40.000 krónur.

Laun ráðherra og nokkurra æðstu embættismanna þjóðarinnar hækka einnig um áramótin og taka þær hækkanir einnig mið af breytingu á meðaltali reglulegra launa.