Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Kínversk yfirvöld sækja hart að viðskiptaveldi Jacks Ma

29.12.2020 - 03:41
epa08902046 (FILE) - Jack Ma, the founder and executive chairman of Chinese e-commerce company Alibaba Group delivers his speech during the opening of the Alibaba group office in Kuala Lumpur, Malaysia, 18 June 2018 (reissued 24 December 2020). According to media reports on 24 December 2020, China's State Administration for Market Regulation initiated a probe into the business practices of e-commerce company Alibaba, due to allegations of monopolistic acts.  EPA-EFE/AHMAD YUSNI
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Fjármálayfirvöld í Kína fyrirskipuðu í gær að viðskipta- og tæknistórveldið Ant Group skuli leyst upp í smærri einingar. Ant Group er móðurfyrirtæki kínverksa póstverslunarrisans Alibaba og fjölda annarra fyrirtækja, stórra og smárra, á sviði verslunar og hátækni. Er þetta liður í glímu kínverskra yfirvalda við aðaleiganda Ant Group, milljarðamæringinn Jack Ma, einn auðugasta mann Kína, og viðskiptaveldi hans.

Fjármála- og viðskiptaeftirlit Kína boðaði á aðfangadag rannsókn á ólögmætum „einokunartilburðum“ Alibaba. Nú hafa þau bætt um betur og krefjast þess að móðurfyrirtækið láti af „ólögmætum viðskiptaháttum“ og dragi til muna úr umfangi starfsemi sinnar.

Ant Group skal minnka og láta af allri „ólöglegri starfsemi“

Í frétt Guardian segir að Pan Gongsheng, aðstoðarbankastjóri kínverska seðlabankans, segi stjórnun og rekstur Ant Group „ótraust“ og krefjist þess að það „hverfi aftur til uppruna síns“ sem greiðsluþjónustufyrirtæki. Þá verði stjórnendur fyrirtækisins að „breyta þegar í stað til betri vegar allri ólöglegri lána-, trygginga- og fjárfestingasjóðsstarfsemi sinni.“

Haft er eftir sérfræðingum að þetta séu arðsömustu þættirnir í starfsemi Ant Group og þeir sem vaxa hraðar. Í yfirlýsingu frá fyrirtækinu segir að það muni bregaðst við tilmælum og kröfum yfirvalda þegar í stað, öllum hlutaðeigandi til hagsbóta. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV