Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hundruð bólusett á bólusetningadaginn fyrsta

Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson, Vi / RÚV
Bólusett var í fyrsta sinn hérlendis gegn COVID-19 í dag. Hundruð ef ekki þúsund voru bólusett um allt land, á hjúkrunarheimilum, Landspítalnum og á fjórða hundrað heilsugæslustarfsmenn í sannkallaðri fjöldabólusetningu. Margir brostu undir grímunum þegar þeir voru sprautaðir gegn COVID-19. 

Táknræn bólusetning í beinni útsendingu

Á bólusetningardaginn fyrsta var byrjað í Katrínartúni þar sem fjórir starfsmenn Landspítalans voru bólusettir klukkan níu í beinni útsendingu.

„Þetta var nú ekki lengi gert og ég segi bara hálfnað er verk þá hafið er. Og nú skulum við fagna,“ sagði Alma D. Möller landlæknir við tilefnið.

Kristín Ingibjörg Gunnarsdóttir hjúkrunarfræðingur á gjörgæsludeild Landspítalans var ein þeirra fjögurra fyrstu: 

„Þetta er bara einstakt tækifæri að við séum komin á þennan stað að geta þegið bólusetningu. Og það er bara mikilvægt að við gerum það öll.“

Tveggja daga bólusetningahrina á Landspítalanum

Útbúin hefur verið nokkurs konar bólusetningarmiðstöð í húsnæði Landspítalans við Skaftahlíð þar sem allir starfsmenn spítalans verða bólusettir. Bóluefni Pfizer og BioNTech er sérlega viðkvæmt og má aðeins geyma fimm daga í kæli og ekki lengur en sex klukkustundir eftir að það hefur verið blandað: 

„Þannig að við blöndum þetta bara núna fyrir hádegi fyrir þá sem koma innan sex tíma,“ segir Arnþrúður Jónsdóttir deildarstjóri lyfjaþjónustu á Landspítalanum.

Þeir fyrstu voru bólusettir klukkan tíu. Það starfsfólk sem fær bólusetningu í þessari fyrstu tveggja daga atrennu er af gjörgæslu, bráðamóttöku, af COVID-19 göngudeildinni og af COVID legudeildunum. Þá voru sjúklingar á Landakoti og á Vífilsstöðum bólusettir í dag. 
  
Þú hefur þá komist í tæri við marga sjúklinga með kórónuveiruna?

„Já, þó nokkuð marga.“

Er þetta þá léttir fyrir þig að fá að fá bólusetningu?

„Ég myndi segja það, klárlega sko,“ segir Sasan Már Nobakht sérnámslæknir á bráðamóttöku. 

Nína Þórarinsdóttir hjúkrunarfræðingur á vöknun og gjörgæslu á Hringbraut sagði bólusetninguna ekki hafa verið neitt mál enda hafi sú sem bólusetti verið svo góð. 

Fylgst er með þeim sem fá sprautu í um 20 mínútur. Tómas Þór Ágústsson innkirtlalæknir segir verið að athuga hvort komi fram ofnæmisviðbrögð. Þau séu hins vegar mjög sjaldgæf. 

Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans var ánægður á þessum tímamótum: 

„Þetta er upphafið að lokakaflanum, vonum við, í þessari erfiðu farsótt og skiptir gríðarlegu máli.“

Heilsugæslustarfsfólk í fjöldabólusetningu á Suðurlandsbraut

Sannkölluð fjöldabólusetning fór svo fram á Suðurlandsbraut 34 í dag þegar 350 starfsmenn Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins voru bólusettir. 

En fyrst þurfti að blanda bóluefnið og setja það í sprautur. 

Ívar Marinó Lilliendahl sérnámslæknir hjá heilsugæslunni sagðist ekki hafa fundið fyrir sprautunni. 

Nanna Kristinsdóttir fagstjóri lækninga á Heilsugæslu Efra-Breiðholts segir óhætt að segja að starfsemin hafi verið þyngri í vöfum í faraldrinum en áður: 

„Við til dæmis erum enn að vinna í hólfaskiptingu upp í Efra Breiðholti.“

Þið getið farið að hittast núna kannski eftir mánuð?

„Vonandi. Við teljum niður dagana.“

Óskar Reykdalsson forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins segir að í dag var verið nokkurs konar generalprufa fyrir framhaldið þegar stórir skammtar fari að koma fyrir almenning: 

„Við erum tilbúin og ef við getum gert það hér þá er þetta praktísk leið. Ef við fáum fleiri skammta þá förum við að fleiri staði.“

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra mætti á Suðurlandsbrautina: 

„Mér finnst alveg ótrúlegt að sjá þetta. Bara svo magnað að upplifa þetta sterka skipulag hérna og sjá þessa flæðilínu hérna. Og hérna er í raun og veru verið að prufukeyra það hvernig það virkar að bólusetja mjög marga á mjög stuttum tíma. Og það er bara magnað að sjá þetta. Heilsugæslan er líka bara algerlega að standa sig gríðarlega vel.“