Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Gripu tækifærið þegar Akureyrarbær boðaði niðurskurð

29.12.2020 - 13:45
Mynd: Óðinn Svan Óðinsson / RÚV
Nokkrir 15 ára strákar á Akureyri gripu tækifærið þegar bærinn tilkynnti að skera ætti niður í snjómokstri í vetur og komu upp litlu fyrirtæki sem býður upp á snjómokstur við innkeyrslur, bílaplön og tröppur. Þeir segja að viðskiptavinirnir séu ánægðir enda verðið sanngjarnt.

Nýttu tækifærið á markaðnum

Fyrr á þessu ári tilkynntu bæjaryfirvöld á Akureyri að spara ætti allt að fimmtíu milljónir króna með því að skerða snjómokstur í vetur. Nokkrir bekkjarfélagar í Giljaskóla á Akureyri ákváðu að nýta tækifærið.

„Allir sem við höfum mokað hjá eru mjög sáttir og sanngjarnt verð," segir Atli Þór Guðmundsson mokstursmaður.

Er brjálað að gera?

„Já, það er nokkuð mikið að gera, við erum alltaf að fá einhver skilaboð inn á Facebook og e-mail," segir Atli Þór.

„Kemur fyrir að þetta tekur aðeins í bakið"

Strákarnir taka við pöntunum á Facebook-síðunni AK-snjómokstur. Þar er viðskiptavinum bent á að þeir eru allir í grunnskóla og geta því aðeins mokað snemma á morgnana eða eftir skóla.

„Þetta er stundum óþægilegt. En maður verður eiginlega bara að hafa sig í gegnum það með stálinu," segir Maríus Héðinsson mokstursmaður.

Er þetta ekkert erfitt?

„Það kemur fyrir að þetta tekur aðeins í bakið, en maður lætur það duga."