Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Fulltrúadeildin ógilti synjun Trumps á samþykki laga

Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Fulltrúadeild Bandaríkjaþings ógilti í kvöld synjun Donalds Trumps á lögum um útgjöld til varnarmála. Lögin voru samþykkt með með miklum meirihluta á báðum deildum þingsins fyrr í þessum mánuði, í þverpólitískri sátt. Forsetinn beitti neitunarvaldi sínu og synjaði lögunum staðfestingar, meðal annars vegna þess að honum mislíkaði ýmislegt sem þar var að finna en þó aðallega til að reyna að knýja fram breytingu á alls óskyldum lögum um takmarkaða ábyrgð samfélagsmiðla á efni sem á þeim birtist.

Lögin um útgjöld til varnarmála voru samþykkt í fulltrúadeildinni með 335 atkvæðum gegn 78, og í kvöld samþykktu 322 þingmenn að ógilda synjun forsetans, þar af 109 þingmenn Repúblikana, en 87 voru á móti.

Tíunda synjun Trumps en sú fyrsta sem er véfengd

Þetta er í tíunda sinn sem Donald Trump beitir neitunarvaldi en fyrsta skiptið sem þingið freistar þess að ógilda þann gjörning, enda ekki hlaupið að því. Til að ógilda synjun forseta og staðfesta lög gegn vilja hans þarf nefnilega tvo þriðju hluta atkvæða í báðum þingdeildum.

Það gekk greitt í fulltrúadeildinni og nú kemur til kasta öldungadeildarinnar, þar sem Repúblikanar eru með meirihluta. Þar voru lögin samþykkt fyrr í þessum mánuði með 84 atkvæðum gegn 13. Margir af dyggustu stuðningsmönnum forsetans eru í hópi þeirra sem styðja frumvarpið, þar á meðal Mitch McConnell, forseti öldungadeildarinnar. Þeir hafa gagnrýnt forsetann fyrir að taka útgjöld til varnarmála í gíslingu vegna óánægju hans með alls óskyld lög. Miklar líkur eru þess vegna taldar á því, að synjun forsetans verði að engu höfð, þegar öldungadeildin greiðir atkvæði um lögin öðru sinni. 

Nefndi nokkrar ástæður en ein þeirra vó þó öðrum þyngra

Þegar Trump tilkynnti að hann hefði synjað lögunum staðfestingar nefndi hann nokkrar ástæður. Þær helstu voru ákvæði sem settu skorður við fækkun bandarískra hermanna í Afganistan og Evrópu og svo ákvæði um að breyta skuli heitum herstöðva sem nefndar eru eftir leiðtogum Suðurríkjahers.

Meginástæða þess að hann synjaði lögunum staðfestingar er þó allt önnur og tengist hvorki lögunum né útgjöldum til varnarmála yfirhöfuð, heldur 25 ára gamalli löggjöf um samfélagsmiðla.

Í færslu á Twitter 2. desember síðastliðinn sagði forsetinn grein 230 í lögum frá 1996 um samskiptamiðla „alvarlega ógn við þjóðaröryggi og áreiðanleika kosninga“ og sagðist ekki samþykkja lög um útgjöld til varnarmála nema í þeim væri ákvæði, sem ógilti þessa „afar hættulegu og ósanngjörnu“ lagagrein fyrir fullt og allt. Greinin sem Trump er svona uppsigað við firrir rekstraraðila gagnvirkrar netþjónustu að mestu leyti ábyrgð á því sem notendur hennar setja inn á þá.